Innlent

Telja brögð í tafli og kæra formannskosningar SUS til miðstjórnar​

Birgir Olgeirsson skrifar
Mikil örtröð myndaðist þegar fulltrúar mættu til SUS-þingsins á Eskifirði sunnudaginn 10. september.
Mikil örtröð myndaðist þegar fulltrúar mættu til SUS-þingsins á Eskifirði sunnudaginn 10. september.
Formannskosning Sambands ungra Sjálfstæðismanna hefur verið kærð til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins. Er því haldið fram að réttkjörnir þingfulltrúar hafi verið hindraðir í að nýta kosningarétt sinn; þeir hafi verið hræddir og fældir burt af kjörstað. Því er jafnframt haldið fram að kosningin hafi skipulega verið sett í uppnám og framkvæmdin viðhöfð til að hafa áhrif á niðurstöðu kosninga.

Ísak segir menn hafa misnotað aðstöðu sína

Kosningin fór fram á 44. sambandsþingi SUS sem haldið var á Eskifirði 10. september. Þar hafði Ingvar Smári Birgisson betur í formannskjöri gegn Ísak Einari Rúnarssyni með 222 atkvæðum gegn 210.

Töluvert var fjallað um kosningabaráttuna í aðdragandanum en frambjóðendur​ kostuðu töluverðu til. Þannig komu á þriðja hundrað stuðningsmenn í rútum á vegum Ísaks á föstudeginum.

Ísak Einar Rúnarsson (t.v.) og Ingvar Smári Birgisson (t.h.) kepptust um að verða næsti formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.
Þá kom fjöldi stuðningsmanna Ingvars Smára austur á firði á sunnudeginum í boði Ingvars Smára, að minnsta kosti hluti þeirra. Þá var einnig hart barist í aðdraganda kosninganna þegar stjórn SUS, með formanninn Laufey Rún Ketilsdóttur aðstoðarmann dómsmálaráðherra, hugðist ekki taka við lista Heimdalls þar sem hann hafði verið sendur á rangt netfang. Ísak Einar og félagar tilkynntu málið til miðstjórnar sem taldi að SUS ætti að taka listann gildan.

Hefur trú á að miðstjórnin taki á málinu

Ísak Einar er á meðal þeirra ellefu sem standa að kærunni á framkvæmd sambandsþingsins, sem fór fram dagana 8.–10. september síðastliðinn.

„Ég get staðfest að við sendum kæruna til miðstjórnar vegnar framkvæmdar á SUS-þinginu,“ segir Ísak Einar í samtali við Vísi og bætir við:

„Við gerðum það vegna þess að við teljum menn hafa misnotað aðstöðu sína til að knýja fram ákveðna niðurstöðu í formanns- og stjórnarkjörinu. Með öðrum orðum teljum við að kosningasvindl hafi átt sér stað á þingi SUS. Mér finnst vera gríðarlega miklir hagsmunir í húfi fyrir flokkinn að það sé staðið með réttum hætti að öllum kosningum í innra starfi hans og ég hef trú á því að lýðræðisflokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn taki á þessu máli með festu og að miðstjórn láti þessi vinnubrögð ekki óátalin.“

Vilja að miðstjórn ógildi þingið í heild sinni

Í kærunni er þess krafist að miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ógildi þingið í heild sinni sem og allar ákvarðanir sem voru teknar á því. Er einnig farið fram á að miðstjórnin skipi bráðabirgðastjórn SUS sem boði sambandsþing eins fljótt og auðið er. Til vara er þess krafist að miðstjórn taki kæruna til meðferðar og úrskurði kosningar til formanns og stjórnar SUS ógildar.

Búast má við að miðstjórn Sjálfstæðisflokksins taki kæruna fyrir á fundi sínum í dag.

Í kærunni eru gerðar alvarlegar athugasemdir við störf kjörbréfanefndar og kjörnefndar. Í henni er því haldið fram að stórum hópi kjósenda hafi verið torveldað með skipulögðum hætti að leysa út kjörbréf sín og nýta kosningarétt sinn.

„Lýðræðisleg kosning var skipulega sett í uppnám og að mati kærenda var framkvæmdin augljóslega viðhöfð til þess að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna,“ segir í kærunni.

93 vafatilvik voru merkt á kjörskrána og þurftu þeir sem þar voru merktir að fara fyrir kjörbréfanefnd og svara spurningum um búsetu sína.
Hlutverk kjörbréfanefndar

Kjörbréfanefnd er kosin við upphaf hvers sambandsþings SUS en í henni sitja þrír fulltrúar. Hlutverk hennar er að kanna kjörbréf þingfulltrúa áður en regluleg þingstörf hefjast. Til að geta átt rétt til þingsetu þurfa fulltrúar að uppfylla skilyrði á borð við kjörgengisaldur, búsetu og að vera skráðir í Sjálfstæðisflokkinn.

Kjörbréfanefnd hefur sömuleiðis það hlutverk að afhenda kjörbréf til aðalmanna og eftir atvikum varamanna, nýti aðalmenn ekki rétt sinn til að sækja þingið. Skal kjörbréfanefnd þá afhenda varamönnum kjörbréf í þeirri röð sem viðkomandi aðildarfélag tilnefndi þá.

Verða að hafa samþykkt kjörbréf

Í lögum um SUS hafa þeir einir rétt til að kjósa á þinginu sem hafa samþykkt kjörbréf. Í kærunni kemur fram að í bága við lög SUS hafi varamenn tekið þátt í störfum þingsins án þess að aðalmenn hefðu fengið tækifæri til að gefa sig fram við kjörbréfanefnd. Þar segir að varamenn hefðu tekið þátt í kjöri þingforseta, kjörbréfanefndar og kjörnefndar ásamt öðrum þingstörfum, allt frá fyrsta degi þingsins.

Þá er því haldið fram í kærunni að forgangsréttur aðalmanna í atkvæðagreiðslu á þinginu hafi verið virtur að vettugi, þar á meðal kosningaréttur til formanns og stjórnar. Þannig hafi varamenn tekið þátt í störfum þingsins án þess að aðalmenn hefðu fengið tækifæri til að gefa sig fram við kjörbréfanefndina, en skráðir aðalfulltrúar á kjörskrá höfðu einir rétt til útgefins kjörbréfs við upphaf þings.

Samkvæmt lögum SUS hefðu varamennirnir í fyrsta lagi átt kost á því að leysa út kjörbréf sín í aðdraganda formanns- og stjórnarkjörs á sunnudegi. „Varamenn tóku þó þátt í kjöri þingforseta, kjörbréfanefndar og kjörnefndar ásamt öðrum þingstörfum, allt frá fyrsta degi þings.“

Brotið á forgangsrétti

Í lögum SUS segir að varamenn skuli gefa sig fram við kjörbréfanefnd þegar þeir mæta til þingsins. Fyrst eiga þeir möguleika á að leysa út kjörbréf þegar kjörbréfanefnd hefur tilkynnt um hve margir aðalmenn hafa leyst sín bréf út. Þetta á að gera þegar klukkustund er til fyrirhugaðs formanns- og stjórnarkjörs á sunnudegi.

Í kærunni kemur fram að samkvæmt þessu hefði kjörbréfanefnd átt að tilkynna um kjörbréf aðalmanna klukkan 12:00 á sunnudeginum 10. september síðastliðinn, því fyrirhugað var að hefja kosningar klukkan 13:00.

Með því að varamenn gátu leyst út bréf sín frá þingsetningu og þar til klukkan 12:00 á sunnudeginum hafi verið brotið á forgangsrétti aðalmanna viðkomandi félaga til þátttöku í kjörinu.

Vafi um lögheimili

Þá kemur jafnframt fram að varamönnum hafi verið veitt kjörbréf í handahófskenndri röð, en ekki í þeirri röð sem ákveðin var fyrir kosninguna, líkt og kveðið er á í lögum um SUS.

Líkt og kom fram í fréttum af SUS-þinginu ákvað kjörbréfanefnd að kanna sérstaklega kjörgengi hátt í hundrað fulltrúa sem höfðu verið merktir sem vafaatriði á kjörskrá. Voru þeir boðaðir á fund kjörbréfanefndar þar sem þeir voru spurðir hvar þeir ættu heima, hvernig húsið liti út, hvernig það væri á litinn, hvort um fjölbýli eða einbýlishús væri að ræða og hverjir aðrir ættu heima þar, svo dæmi séu tekin.

Í kærunni kemur fram að 93 hafi verið merktir sem vafatilvik á kjörskrá, en fyrir þingið höfðu báðir frambjóðendur gengist við því að stuðningsmenn þeirra hefðu fært lögheimili sitt í aðdraganda kosninganna til að geta kosið þá.

Jóhannes Stefánsson var formaður kjörbréfanefndar á núafstöðnu sambandsþingi SUS. Jóhannes gegndi áður stöðu aðstoðarmanns menntamálaráðherra þegar Illugi Gunnarsson fór fyrir þeim málaflokki.SUS
Telja stuðningsmönnum mismunað

Þau sem að kærunni standa segja að umræddir fulltrúar hafi verið réttilega tilnefndir og réttmætir fulltrúar að mati stjórnar SUS sem hafði samþykkt þá í aðdraganda þingsins. Þeir segja stjórnina hafa kannað kjörgengisskilyrði og samkeyrt lista yfir tilnefnda fulltrúa við lista Þjóðskrár Íslands í því augnamiði að kanna hvort viðkomandi fulltrúar ættu lögheimili innan viðeigandi umdæmis. Hafði stjórnin auk þess sent út kjörskrá til frambjóðenda í formannsembætti samtakanna sem innihélt nöfn allra réttkjörinna aðal- og varamanna á þessu þingi SUS.

Ísak og stuðningsmenn hans halda því fram að aðeins örfáir stuðningsmenn Ingvars Smára Birgissonar hafi verið taldir vafatilvik og því hafi skapast augljós og mikill aðstöðumunur milli stuðningsmanna frambjóðendanna tveggja.

Hlutlægni kjörbréfanefndar dregið í efa

Er þetta sagt vekja upp áleitnar spurningar um óhlutdrægni kjörbréfanefndar, sérstaklega í ljósi þess að báðir frambjóðendur höfðu upplýst í fjölmiðlum um að stuðningsmenn beggja framboða hefðu fært lögheimili sín í aðdraganda sambandsþingsins.

Er það mat þeirra sem að kærunni standa að með þessu hafi kjörbréfanefnd tekið sér vald og heimildir sem eru utan lögbundins verksviðs hennar samkvæmt lögum SUS, en þar segir að kjörbréfanefnd skuli kanna kjörbréf þingfulltrúa og aðeins þeir sem hafi samþykkt kjörbréf eigi rétt á þingsetu. Annað segi ekki um hlutverk kjörbréfanefndar og að lögin verði ekki skilin öðruvísi en að hlutverk nefndarinnar sé eingöngu að athuga hvort þeir sem gefi sig fram við hana hafi fengið samþykkt kjörbréf af hálfu stjórnar SUS.

Yfirheyrslur yfir þeim sem skráðir voru vafatilvik

Þá halda kærendur því fram að þessi athugun um kjörgengisskilyrði hefði átt að fara fram áður en regluleg þingstörf hófust og allra síst þegar svo stutt var til kosninga.

Samkvæmt fundargerð kjörbréfanefndar hófust yfirheyrslur klukkan 13:45 yfir þeim 93 sem skráðir voru vafatilvik í kennslustofu í Grunnskóla Eskifjarðar, það er 45 mínútum eftir að fyrirhugaðar kosningar áttu að hefjast. Hófst kosningin klukkan 13:25 samkvæmt skráningu kjörnefndar, áður en yfirheyrslum var lokið og meintum vafa eytt í öllum tilvikum.

47 fulltrúar komu fyrir nefndina og fengu þeir allir rétt til að kjósa.

Hneykslanleg og ágeng framkoma

Í kærunni kemur fram að margir þeirra sem fóru fyrir kjörnefndina hefðu haft á orði að nefndarmenn hefðu verið ágengir og sýnt hneykslanlega framkomu, þar sem þeir voru spurðir hvernig hús þeirra væri á litinn, hvernig glugga viðkomandi húss litu út og hverjir aðrir búi þar.

Komið er inn á að formaður kjörbréfanefndar, Jóhannes Stefánsson fyrrverandi aðstoðarmaður menntamálaráðherra, hefði gengist við því að hafa leitað einstaklinga uppi á leitarvél Google, á upplýsingaveitu Ja.is og Þjóðskrá Íslands. Þannig á töluverð rannsóknarvinna að hafa verið að baki fyrir yfirheyrslurnar.

„Þess má geta að formaður kjörbréfanefndar þóttist fyrst heyra af véfengingum á kjörskrá að morgni sama dags. Frá þeim tíma og fram að yfirheyrslum starfaði formaðurinn ásamt öðrum meðlimum kjörbréfanefndar við skráningu þingfulltrúa,“ segir í kærunni.

Tilgangur yfirheyrslna sagður að skapa ótta

Er það mat þeirra sem að kærunni standa að tilgangurinn með yfirheyrslum kjörbréfanefndar hafi verið að tálma réttkjörnum þingfulltrúum að nýta kosningarétt sinn, hræða þá og fæla burt af kjörstað.

„Margir hinna umræddu fulltrúa eru ungir að aldri og jafnvel enn á barnsaldri. Mikill fjöldi þeirra sótti sitt fyrsta þing á Eskifirði og hafa kærendur upplýsingar um að margir þeirra muni ekki sækja viðburði á vegum flokksins framar sökum framkvæmdar kosninganna,“ segir í kærunni.

Það er sömuleiðis talið ámælisvert af hálfu þeirra sem að kærunni standa hversu seint gekk að skrá inn þingfulltrúa að morgni sunnudags því að það þótt ljóst að margir þingfulltrúar myndu skrá sig inn á þingið á milli klukkan 11 og 12 að morgni sunnudagsins 10. september. Þingið hófst föstudaginn 8. september en venjan er sú að langflestir mæta á sunnudeginum þegar kosningar til formanns og stjórnar fara fram.

Sambandsþingið var haldið á Eskifirði.Vísir/GVA
Seinagangur sagður að yfirlögðu ráði

550 aðalsæti eru í boði fyrir hvert þing, að viðbættum varamönnum var því viðbúið að fleiri hundruð manns myndu mæta á sama tíma, eða klukkan 11 að morgni sunnudagsins 10. september, í þeim tilgangi að skrá sig til leiks og kjósa.

Í kærunni kemur fram að aðeins hefði verið stuðst við eina starfsstöð og eina tölvu við innskráningar sem varð um tíma rafmagnslaus, sem olli töf á innskráningu þingfulltrúa. Var farið margoft á leit við kjörbréfanefnd að fleiri aðstoðuðu við skráningu á þingið en meirihluti kjörbréfanefndar hafi hafnað slíkum óskum.

„Það er mat kærenda að kjörbréfanefnd hafi vísvitandi viðhaft skipulagsleysi og seinagang í þeirri viðleitni að tefja framgang þingsins. Þannig hafi verið ætlan kjörbréfanefndar að veita sem flestum stuðningsmönnum Ingvars Smára kjörbréf en þeir voru í mörgum tilfellum varamenn sem aðeins fengju sæti ef aðalmenn gæfu sig ekki fram við kjörbréfanefnd fyrir klukkan 12:00 sunnudaginn 10. september.

Fjölmargir aðalfulltrúar mættu sannanlega til þings kl. 11:00 að morgni sunnudags og kaus kjörbréfanefnd gagngert að vanvirða forgangsrétt þeirra á þingið. Þrátt fyrir mætingu á tilsettum tíma, í samræmi við dagskrá þingsins, taldi kjörbréfanefnd þá ekki mætta til þings nema nefndin væri búin að afgreiða þá. Þrátt fyrir þetta neitaði formaður kjörbréfanefndar að virða forgangsrétt aðalfulltrúa og taka þá til afgreiðslu á undan varafulltrúum,“ segir í kærunni.

Telja framgöngu formanns kjörnefndar vafasama

Þá er því einnig haldið fram að formaður kjörbréfanefndarinnar, fyrrnefndur Jóhannes Stefánsson sem var varaþingfulltrúi Heimdallar á þinginu, hefði bætt sjálfum sér á kjörskrá þrátt fyrir að hafa formlega lokað fyrir skráningar á kjörskrá.

„Hann hafði beitt sér fyrir því að loka kjörskrá þegar tveir þingfulltrúa biðu enn fundar kjörbréfanefndar. Hann féllst á að hleypa þeim fulltrúum að en loka svo kjörskrá í sömu andrá. Kjörnefnd var tilkynnt um formlega lokun kjörskrár, í vitna viðurvist, en tveimur mínútum síðar bætti formaðurinn sjálfum sér á kjörskrá og greiddi atkvæði hjá kjörnefnd í kjölfarið.“

Misvísandi auglýsingar

Í kærunni kemur fram að sambandsþingið hefði verið auglýst á Facebook-viðburði og dagskrá þess einnig. Í auglýsingunni hafi komið fram að kosning til formanns og stjórnar færi fram í félagsheimilinu Valhöll á Eskifirði klukkan 13:00, þann 10. september.

Klukkan 11:19 sama daga hafi verið tilkynnt um breytingu á staðsetningu kosninganna og tilkynnt um nýja staðsetningu, Grunnskóla Eskifjarðar. Eru þessi vinnubrögð talin ámælisverð, enda hafi störf þingsins þennan dag hafist klukkan 11 og þar með skráning fulltrúa á þingið.

„Sér í lagi teljast þessi afglöp kjörnefndar ámælisverð í ljósi þess að í fyrrnefndri Valhöll hafði Ingvar Smári Birgisson, annar formannsframbjóðenda, komið sér fyrir ásamt stuðningsmönnum sínum og bauð þar upp á pylsur og bjór. Ekki er hægt að útiloka að þingfulltrúar sem þangað komu hafi vænst þess að mæta á kjörfund í Valhöll,“ segir í kærunni.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, situr í miðstjórn flokksins.vísir/valli
Líkt og fyrr segir má búast við að þessi kæra verði tekin fyrir á fundi miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins í dag. Miðstjórnin fer með framkvæmdastjórn flokksins. Hún ber ábyrgð á öllu innra starfi flokksins, hefur eftirlits- og úrskurðarvald um allar framkvæmdir á vegum hans.

Bjarni Benediktsson mun væntanlega fjalla um kæruna

Rúmlega 30 manns eiga sæti í miðstjórn, en þar á meðal eru Bjarni Benediktsson formaður flokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari flokksins en báðir frambjóðendur á SUS-þinginu, Ingvar Smári og Ísak Einar, eiga einnig sæti í miðstjórn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×