Íslenski boltinn

Halldór Smári og Ozegovic framlengja við Víking

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Halldór Smári Sigurðsson hefur verið hjá Víkingi allan sinn feril.
Halldór Smári Sigurðsson hefur verið hjá Víkingi allan sinn feril. vísir/ernir
Halldór Smári Sigurðsson, miðvörður Víkings Reykjavíkur í Pepsi-deild karla í fótbolta, og serbneski miðjumaðurinn Milos Ozegovic, hafa báðir skrifað undir nýjan samning við félagið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Víkingum.

Halldór Smári skrifaði undir þriggja ára samning við uppeldisfélagið sitt eða út tímabilið 2020. Hann er leikjahæsti núverandi leikmaður Víkings með 261 leik en hann hefur byrjað alla leiki liðsins í Pepsi-deildinni í sumar.

Ef fram heldur sem horfir getur miðvörðurinn, sem hóf ferilinn sem miðjumaður og síðar bakvörður, orðið leikjahæsti leikmaður í sögu Víkings á samningstímabilinu.

Milos Ozegovic hefur átt fínt sumar inn á miðjunni hjá Víkingum sem björguðu sér frá falli með 3-1 sigri á nöfnum sínum frá Ólafsvík á mánudaginn. Hann hefur spilað 17 leiki fyrir Víking í sumar og framlengdi samning sinn um eitt ár.

Víkingar eiga eftir leiki á móti ÍA á heimavelli og Valsmönnum á útivelli og geta með tveimur sigrum jafnað stigamet sitt frá því í fyrra þegar að þeir náðu í 32 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×