Erlent

22 börn dáin og 42 saknað í skóla sem hrundi

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar, slökkviliðsmenn og almennir borgarar keppast við að grafa fólk út úr rústum skóla, vinnustaða og fjölbýlishúsa.
Lögregluþjónar, slökkviliðsmenn og almennir borgarar keppast við að grafa fólk út úr rústum skóla, vinnustaða og fjölbýlishúsa. Vísir/AFP
Minnst 217 eru látnir eftir að jarðskjálfti 7,1 að styrk skall þar á í gær. Lögregluþjónar, slökkviliðsmenn og almennir borgarar keppast við að grafa fólk út úr rústum skóla, vinnustaða og fjölbýlishúsa. Ein umfangsmesta björgunaraðgerðin stendur yfir í barnaskóla sem hrundi að hluta til í suðurhluta Mexíkóborgar.

Jarðskjálftinn reið yfir rétt eftir klukkan eitt að staðartíma, um klukkan sex í kvöld að íslenskum tíma. Upptök skjálftans voru um 120 kílómetrum frá Mexíkóborg og á um 51 kílómetra dýpi.

Þar er vitað til að minnst 22 börn séu dáin og tveir fullorðnir. 30 barna er saknað og tólf kennara og foreldra, samkvæmt frétt Reuters.

Læknirinn Pedro Serrano er einn af sjálfboðaliðunum sem koma að leitinni í skólanum en hann sagði AP fréttaveitunni frá leitinni og því þegar hann komst inn í eina kennslustofu þar sem allir voru dánir.

Vísir/GraphicNews
„Við sáum stóla og borð. Það næsta sem við sáum var fótur og þá fórum við að færa brakið til. Við fundum stúlku og tvo fullorðna, konu og mann. Við heyrum hljóð, en við vitum ekki hvort þau koma að ofan eða fyrir neðan okkur, úr veggjunum eða einhver sé jafnvel að kalla á hjálp,“ sagði Serrano.

32 ár frá því að þúsundir dóu


Einungis nokkrum klukkustundum áður en jarðskjálftinn skall á voru haldnar jarðskjálftaæfingar víða um landið í tilefni af því af í gær voru 32 ár liðin frá því að þúsundir létu lífið í jarðskjálfta árið 1985. Þá eru einungis tæpar tvær vikur frá því að nærri því hundrað manns létu lífið í jarðskjálfta í suðurhluta landsins. Miðja jarðskjálftans í gær var skammt frá Mexíkóborg.

Um tvær milljónir íbúa Mexíkóborgar eru án rafmagns og eru símalínur ónothæfar. Þá hafa yfirvöld varað fólk við því að reykja á götum borgarinnar þar sem búist er við því að gasleiðslur hafi farið í sundur víða, samkvæmt frétt BBC.

Samkvæmt AP er Mexíkóborg byggð þar sem áður var stórt stöðuvatn og leiðir jarðvegurinn undir borginni til þess að áhrif jarðskjálfta verði kröftugari þar. Ekki er talið að jarðskjálftinn í gær tengist jarðskjálftanum sem skall á þann 7. september.

Frá aðgerðum í skólanum þar sem minnst 22 börn eru látin og 42 er saknað. Frá aðgerðum í Mexíkóborg

Tengdar fréttir

Öflugur jarðskjálfti skók Mexíkó

Skjáftinn olli talsverðu tjóni í höfuðborg landsins, Mexíkóborg, en vitni greina frá því að byggingar hafi verið rýmdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×