Erlent

María nær landi Puerto Rico

Samúel Karl Ólason skrifar
10.059 manns og 189 gæludýr eru í neyðarskýlum.
10.059 manns og 189 gæludýr eru í neyðarskýlum. Vísir/AFP
Fellibylurinn María er nú mætt til Puerto Rico þar sem búist er við að hún muni valda miklum skemmdum. María hefur verið færð niður í fjórða flokk fellibylja en vantar þó einungis einum metra á sekúndu frá því að vera í fimmta flokki.

Vindhraði Maríu er nú um 69 m/s og er hún fyrsti fjórða flokks fellibylurinn sem nær landi á eyjunni frá 1932.

Þúsundir íbúa Puerto Rico hafa flúið heimili sín og halda til í neyðarskýlum. Samkvæmt frétt CNN eru 10.059 manns og 189 gæludýr í neyðarskýlum. Búið er að flytja fólk af svæðum sem þykja líkleg til að fara undir vatn en mikil rigning fylgir Maríu og talið er að mikill sjór muni ganga inn á land.

AP fréttaveitan segir frá því að þök hafi þegar fokið af mörgum húsum áður en auga Maríu náði landi. Hundruð þúsunda eru án rafmagns og tré hafa rifnað upp með rótum. Eitt slíkt fauk á sjúkrabíl.

Vitað er til þess að einn sé dáinn vegna Maríu og er minnst tveggja saknað.

María er áttunda kröftugasti fellibylurinn sem mælst hefur á Atlantshafinu, en Irma var í öðru sæti. 38 dóu í Karíbahafinu vegna Irmu og 36 í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×