Viðskipti innlent

Arion og lífeyrissjóðirnir taka yfir 98% í United Silicon

Haraldur Guðmundsson skrifar
United Silicon er í greiðslustöðvun.
United Silicon er í greiðslustöðvun. Vísir/Vilhelm
Arion banki og fimm lífeyrissjóðir hafa tekið yfir 98,13 prósent af hlutafé kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík. Þetta var niðurstaða hluthafafundar félagsins sem fór fram í gær.

Á fundinum var Þórður Ólafur Þórðarson, starfsmaður Arion banka, kjörinn nýr stjórnarmaður en auk hans skipa áfram stjórnina þau Jakob Bjarnason, stjórnarformaður United Silicon, og Sigrún Ragna Ólafsdóttir. Doron Beeri Sanders, fyrrverandi stjórnarformaður verksmiðjunnar, hætti þá í stjórn félagsins. Þar sat hann fyrir hönd hollenska hrávörufyrirtækisins Bit Fondel sem hefur einkarétt á sölu á kísilmálmi United Silicon í gegnum Silicon Mineral Ventures sem tók þátt í stofnun kísilversins.

Stofnendur United Silicon, þar á meðal Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, og hollenska fyrirtækið, eru því ekki lengur hluthafar í verksmiðjunni. Hin 1,87 prósentin í félaginu eru í eigu Kastalabrekku ehf. en eigandi þess er lögmannsstofan Veritas lögmenn. Þar starfar Friðbjörn Eiríkur Garðarsson, hálfbróðir Magnúsar, sem átti þátt í stofnun United Silicon.

Arion, stærsti lánveitandi kísilversins, sem er með um átta milljarða króna útistandandi vegna þess, gekk fyrr í september að veðum og tók yfir hlutabréf stærsta eiganda verksmiðjunnar sem voru áður í eigu Bit Fondel, tengdra félaga og annarra stofnenda United. Þeir fimm lífeyrissjóðir sem um ræðir eru Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Festa lífeyrissjóður, Eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands og Eftirlaunasjóður Reykjanesbæjar. 

Stjórn United Silicon hefur líkt og komið hefur fram kært Magnús Garðarsson til embættis héraðssaksóknara.


Tengdar fréttir

Stofnendur United Silicon út í kuldann

Driffjaðrirnar í stofnun United Silicon hafa misst stjórnarsæti og þriðjungshlut í verksmiðjunni. Fulltrúi hollenska fyrirtækisins Bit Fondel fer líklega úr stjórn á næstu dögum.

Magnús talinn hafa svikið áfram eftir starfslok

Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon, hefur verið kærður vegna meints skjalafals og fjárdráttar. Talinn hafa falsað reikninga frá fyrirtæki á Ítalíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×