Erlent

Rouhani sendi Trump tóninn

Samúel Karl Ólason skrifar
Hassan Rouhani, forseti Íran.
Hassan Rouhani, forseti Íran. Vísir/Getty
Hassan Rouhani, forseti Íran, segir að Donald Trump myndi „gera út af við“ trúverðugleika Bandaríkjanna, dragi hann Bandaríkin úr kjarnorkusamkomulaginu svokallaða. Hann sagði að Íran yrði ekki hótað og hét því að Íran myndi ekki verða fyrsta ríkið til þess að rjúfa samkomulagið.

Þar að auki sagði hann að Íran myndi bregðast við öllum brotum gegn samkomulaginu.

Þetta sagði Rouhani í ræðu sinni á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem stendur nú yfir í New York.

Í ræðu sinni í gær var Donald Trump harðorður í garð Íran og sagði ríkið styðja við bakið á hryðjuverkasamtökum og reyna að koma upp kjarnorkuvopnum í stað þess að bæta líf þegna sinna. Þá sagði hann að kjarnorkusamkomulagið væri skammarlegt fyrir Bandaríkin og versti samningur sem ríkið hefði komið að.

Í dag hefur Trump sagt að hann hefur tekið ákvörðun um hvort hann ætli að draga Bandaríkin úr samkomulaginu eða ekki. Hann hefur hins vegar ekki viljað gefa út hver ákvörðun hans er.

Samkomulagið fól í sér að Íran myndi láta af kjarnorkuvopnaáætlun ríkisins í staðinn fyrir að hinar ýmsu viðskiptaþvinganir yrðu lagðar af.

Rouhani sagði einnig að það yrði „synd“ ef samkomulagið myndi verða eyðilagt af Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×