Íslenski boltinn

Fjölnismenn geta fellt Skagamenn í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fjölnismenn eru örlagavaldar Skagamannanna í dag.
Fjölnismenn eru örlagavaldar Skagamannanna í dag. Fréttablaðið/Eyþór
Skagamenn geta fallið í þriðja sinn á níu árum í dag og það þrátt fyrir að þeir séu ekki að spila. Fjölnismönnum nægir að krækja í stig á heimavelli sínum á móti FH til að senda Skagaliðið niður í Inkasso-deildina.

Leikur Fjölnis og FH tilheyrir fimmtándu umferð Pepsi-deildarinnar og átti að fara fram um miðjan ágúst en honum var frestað vegna bikarúrslitaleiksins og þátttöku FH-inga í Evrópukeppninni.

Skagamenn féllu úr deildinni bæði haustið 2008 og haustið 2013 en hafa verið meðal þeirra bestu undanfarin þrjú tímabil. Skagamenn eru í vonlítilli stöðu þegar tvær umferðir eru eftir af mótinu en fimm stig í síðustu þremur leikjum þýða að ÍA-liðið er enn á lífi. Það gæti hins vegar breyst með jafntefli eða sigri Fjölnisliðsins á móti FH í Grafarvoginum í kvöld.

Meira en helmingur stiga Fjölnismanna á útivelli í sumar kom í sigri á FH í fyrri leiknum í Kaplakrika (3 af 5) en aftur á móti hafa aðeins fjögur lið náð betri árangri á heimavelli en Grafarvogsliðið í deildinni í sumar (16 stig í 9 leikjum).

FH-ingar hafa líka að miklu að keppa. Þeir geta tryggt sér Evrópusæti með sigri í kvöld en þá væri öruggt að Hafnarfjarðarliðið endar í annaðhvort öðru eða þriðja sæti deildarinnar.

Fjölnismenn þurfa líka á stigum að halda í baráttunni við að halda sæti sínu í deildinni. Þeir sitja eins og er í síðasta örugga sætinu en Grafarvogs­piltar eru aðeins stigi á undan Víkingi Ólafsvík.

Leikur Fjölnis og FH fer fram á Extra vellinum í Grafarvogi, hefst klukkan 16.30. Hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×