Viðskipti innlent

Lækkuðu verðmat á N1 um rúmlega tólf prósent

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
EBIDTA N1 dróst saman um 30% á milli ára.
EBIDTA N1 dróst saman um 30% á milli ára. vísir/vilhelm
Landsbankans hefur lækkað verðmat sitt á olíufélaginu N1 um liðlega 12 prósent, úr 132,9 krónum á hlut í 116,7 krónur. Engu að síður er verðmatsgengi hagfræðideildarinnar 8,5 prósentum yfir gengi hlutabréfa félagsins sem stóð í 107,5 krónum á hlut síðdegis í gær. Ráðleggja sérfræðingar Landsbankans fjárfestum að halda bréfum sínum í félaginu, en áður höfðu þeir mælt með kaupum.

Rekstur N1 á öðrum fjórðungi ársins olli vonbrigðum að mati hagfræðideildarinnar. Í verðmatinu, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er bent á að þrátt fyrir mikinn vöxt í komum ferðamanna og aukna umferð á vegum landsins hafi tekjur og EBITDA – rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – verið töluvert undir væntingum markaðarins.

Samkvæmt stjórnendum N1 skýrist slök niðurstaða á öðrum fjórðungi af lækkandi heimsmarkaðsverði á olíu og gengisstyrkingu krónunnar. Sérfræðingar hagfræðideildarinnar benda á að þessir áhrifaþættir hafi þróast til betri vegar fyrir félagið undanfarnar vikur, bæði hafi gengi krónunnar veikst og olíuverð hækkað, og því megi búast við því að afkoma N1 verði með ágætum á þriðja fjórðungi ársins.

Hagfræðideildin gerir ráð fyrir 4,4 prósenta tekjuvexti í ár, 4,5 prósenta vexti á næsta ári og 3,5 prósenta vexti árið 2019. „Við teljum að umferð haldi áfram að aukast, hagvöxtur verður töluverður og aukning er í komum erlendra ferðamanna sem sækja þjónustu á stöðvar N1 á landsbyggðinni, sérstaklega á Suðurlandi. Allt eru þetta þættir sem styðja við tekjuvöxt N1,“ segir í verðmatinu.

Þar er einnig bent á að hörð kjarabarátta á almennum vinnumarkaði kæmi félaginu illa. Í núverandi árferði sé mikil hætta á launaskriði þar sem fyrirtæki þurfi að keppa um starfskrafta. Segir hagfræðideildin að stjórnendur N1 eigi erfitt um vik að draga úr launakostnaði. Er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður félagsins hækki um 5,2 prósent á árinu og verði áfram mikill áhættuþáttur í rekstrinum.

Í verðmatinu er ekki tekið tillit til samlegðaráhrifa af fyrirhuguðum kaupum N1 á smásölukeðjunni Festi. Sérfræðingar Landsbankans telja þó að gróflega áætlað geti um 573 milljónir króna sparast vegna kaupanna. Er virði samlegðarinnar þannig 3,8 milljarðar króna eða sem nemur um 12 krónum á hlut, samkvæmt útreikningum bankans. Er meðal annars bent á að takist sameinuðu félagi að fækka störfum um 4 prósent muni það skila sér í sparnaði sem nemur um 400 milljónum króna.

Auk þess geti verið veruleg tækifæri til hagræðingar á sviði innkaupa og með samnýtingu fasteigna og verslana félaganna. Að mati hagfræðideildarinnar væru kaupin jákvætt skref fyrir félögin með tilliti til samlegðaráhrifa og myndi jafnframt gera þau betur í stakk búin til þess að mæta aukinni samkeppni, meðal annars af hálfu bandaríska risans Costco.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×