Innlent

Missti ekki úr kennslustund þrátt fyrir erfið veikindi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Pálsson hlaut margsinnis verðlaun fyrir verk sín, en var jafnframt virtur kennari. "Hann naut þess að vera í samskiptum við ritlistarnema og gladdist yfir velgengni þeirra,“ segir Rúnar Helgi Vignisson.
Sigurður Pálsson hlaut margsinnis verðlaun fyrir verk sín, en var jafnframt virtur kennari. "Hann naut þess að vera í samskiptum við ritlistarnema og gladdist yfir velgengni þeirra,“ segir Rúnar Helgi Vignisson. vísir/stefán
„Á þessari stundu er mér efst í huga söknuður við fráfall einstaks vinar úr æsku og allar götur síðan. Auðvitað vissum við að hverju dró og þó gat maður auðveldlega blekkt sig til að vona að honum yrði lengri lífdaga auðið af því hvað hann var til hinstu stundar gersamlega brilljant og andríkur,“ segir Pétur Gunnarsson rithöfundur um vin sinn Sigurð Pálsson, rithöfund og þýðanda.

Háskólasamfélagið og rithöfundar eru harmi slegnir við fráfall Sigurðar Pálssonar rithöfundar, sem er látinn 69 ára að aldri. Hann greindist með krabbamein í brjósthimnu fyrir þremur árum. Sigurður var fréttaritari, leiðsögumaður, kennari og vann við sjónvarp og kvikmyndir. Hann hafði þó einkum fengist við ritstörf og þýðingar um langt skeið. Hann var forseti Alliance Française um skeið og formaður Rithöfundasambands Íslands. Sigurður var sæmdur fálkaorðunni á nýársdag 2017.

„Að tala við hann var alltaf eins konar ljóðagjörningur. Við áttum ótal símtöl í gegnum árin og maður var alltaf uppnuminn eftir hvert símtal. Hann talaði oft í myndmáli og var talandi skáld, ekki bara skrifandi skáld,“ segir Rúnar Helgi Vignisson, dósent við íslenskudeild Háskóla Íslands og umsjónarmaður með ritlistarnámi við skólann.

Pétur Gunnarsson rithöfundur
Rúnar Helgi segir að Sigurður hafi haldið þessu ljóðræna tungutaki alveg fram á síðasta dag. „Það er hálfur mánuður síðan ég hitti hann síðast á líknardeildinni og þá var það enn þá ljóðræn upplifun að heyra hann lýsa sínum veikindum og sínu meini. Hann var enn skapandi í hugsun, alveg fram í andlátið,“ segir Rúnar Helgi. Hann segir nemendur sína hafa tjáð sig opinskátt um andlát Sigurðar, enda hafi hann verið afar vinsæll og virtur kennari. Þau séu slegin þó að þau hafi vitað í hvað stefndi.

Sigurður kenndi ritlist í tólf ár og leiðbeindi jafnframt nemendum með lokaverkefni þeirra. „Síðustu tvo vetur kenndi hann með krabbameinið og missti ekki úr eina einustu kennslustund þótt af honum væri dregið. Hann naut þess að vera í samskiptum við ritlistarnema og gladdist yfir velgengni þeirra,“ segir Rúnar Helgi.

Pétur segir að æviverk Sigurðar sé mikið að vöxtum, ljóð, leikrit, sögur og síðast en ekki síst öll þau erlendu verk sem hann miðlaði íslenskum lesendum í hágæða þýðingum. „Allt mun það lifa áfram og maðurinn sjálfur ógleymanlegur öllum sem honum kynntust,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×