Erlent

Manntjón og eyðilegging í Mexíkó

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Björgunarfólk kallar eftir þögn með því að lyfta höndum. Það eykur líkurnar á að heyra í þeim gröfnu.
Björgunarfólk kallar eftir þögn með því að lyfta höndum. Það eykur líkurnar á að heyra í þeim gröfnu. vísir/afp
Að minnsta kosti þrjátíu börn fórust og þrjátíu til viðbótar var saknað eftir að skóli þeirra hrundi í jarðskjálftanum sem skók Mexíkó á þriðjudag. Frá þessu greindi Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, í gær. Skjálftinn, sem mældist 7,1 stig, olli gífurlegu tjóni í Mexíkóborg og nærliggjandi ríkjum og er talið að alls hafi að minnsta kosti 216 farist í hamförunum.

Upptök skjálftans voru nærri Atencingo í Puebla-ríki, nærri 120 kílómetra frá Mexíkóborg. Flestir létust hins vegar í Mexíkóborg, 86 talsins. Þá fórst 71 í Morelos-ríki og 43 í Puebla-ríki.

Alfredo del Mazo Maza, ríkisstjóri Mexíkó, lokaði öllum skólum Mexíkó-ríkis í dag og ákvað sömuleiðis að allar almenningssamgöngur yrðu ókeypis. Menntamálaráðuneyti Mexíkó greindi frá því í gær að 209 skólabyggingar hefðu skemmst vegna skjálftans, þar af 15 illa.

Björgunarfólk hefur nýtt hverja stund til þess að leita að fólki sem festist undir braki úr byggingum en fjölmörg hús hrundu í skjálftanum, þar af 39 í Mexíkóborg. Hefur björgunarfólkið notið aðstoðar hermanna, lögreglu, slökkviliðs og sjálfboðaliða. Í samtali við Televisa sagði Miguel Angel Mancera borgarstjóri í gær að á meðal bygginganna væru sex hæða íbúðablokk, matvöruverslun og verksmiðja.

Þá greindi sjónvarpsstöðin jafnframt frá því að 26 hefði verið bjargað úr rústum byggingar sem áður stóð við Álvaro Obregón-stræti en þrettán væru enn fastir í rústunum.

Innviðir Mexíkóborgar eru afar laskaðir eftir hamfarirnar og greindi BBC frá því í gær að um tvær milljónir væru án rafmagns og símasambands. Borgarbúar voru jafnframt varaðir við því að reykja úti á götu þar sem gasleiðslur gætu hafa skemmst.

Stutt er síðan 8,2 stiga skjálfti reið yfir Mexíkó en að sögn jarðfræðings hjá BBC virðast skjálftarnir ótengdir. Um 650 kílómetrar eru á milli upptaka skjálftanna en venjulega eru eftirskjálftar með upptök innan við 100 kílómetra frá upptökum upprunalega skjálftans.

Þá voru á þriðjudag 32 ár liðin frá því að stór skjálfti reið yfir Mexíkóborg og varð um tíu þúsund manns að bana. 400 byggingar hrundu í þeim skjálfta. Skjálfti þriðjudagsins reið yfir þegar jarðskjálftaæfing var haldin í tilefni af afmæli gamla skjálftans og samkvæmt mexíkóskum fjölmiðlum mistúlkuðu allnokkrir skjálftaviðvaranir sem hluta æfingarinnar.

Nítján jarðskjálftar, sterkari en 6,5 stig, hafa riðið yfir svæðið í 250 kílómetra radíus frá upptökum skjálfta þriðjudagsins undanfarna öld. Er það vegna þess að í Mexíkó er einna mest skjálftavirkni í heiminum enda er ríkið á flekaskilum þriggja af stærstu jarðskorpuflekum plánetunnar, Norður-Ameríku­flekans, Kókosflekans og Kyrrahafsflekans. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×