Erlent

Leita í kappi við tímann í rústum grunnskóla í Mexíkóborg

Minnst 21 barn og fimm fullorðnir létu lífið þegar skólinn hrundi og fjölda annarra er saknað.
Minnst 21 barn og fimm fullorðnir létu lífið þegar skólinn hrundi og fjölda annarra er saknað. vísir/epa
Björgunarsveitarmenn í Mexíkó eru nú í kappi við tímann við leit í rústum grunnskóla í Mexíkóborg sem hrundi í jarðskjálftanum á þriðjudag.

Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá því að þeir viti um að minnsta kosti um eitt barn sem enn sé á lífi í rústunum, 13 ára gamla stúlku sem er talin vera undir borði í skólanum. Minnst 21 barn og fimm fullorðnir létu lífið þegar skólinn hrundi og fjölda annarra er saknað.

Skólinn er í suðurhluta borgarinnar og þar sem áhyggjufullir foreldrar biðu við rústirnar fundu björgunarsveitarmenn nemendur á lífi.

„Þau eru á lífi! Á lífi!“ hrópaði einn þeirra og lýsti því að einhver hefði bankað í vegg nokkrum sinnum og annars staðar var ljósmerkjum svarað með lampa. Það er því enn von um að einhver finnist á lífi í rústum grunnskólans en alls hafa um 700 manns komið að björgunarstarfinu.

Tugir bygginga í Mexíkóborg hrundu í skjálftanum sem átti upptök sín nærri Atencingo í Puebla, um 120 kílómetra frá borginni. Enrique Peña Nieto, forseti Mexíkó, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna skjálftans en minnst 237 eru látnir vegna hans.

Innviðir Mexíkóborgar eru afar laskaðir eftir hamfarirnar. Þannig fór rafmagn og símasamband af víða í borginni auk þess sem gasleiðslur gætu hafa skemmst í skjálftanum.

Stutt er síðan 8,2 stiga skjálfti reið yfir Mexíkó en að sögn jarðfræðings hjá BBC virðast skjálftarnir ótengdir. Um 650 kílómetrar eru á milli upptaka skjálftanna en venjulega eru eftirskjálftar með upptök innan við 100 kílómetra frá upptökum upprunalega skjálftans.

Þá voru á þriðjudag 32 ár liðin frá því að stór skjálfti reið yfir Mexíkóborg og varð um tíu þúsund manns að bana. 400 byggingar hrundu í þeim skjálfta. Skjálfti þriðjudagsins reið yfir þegar jarðskjálftaæfing var haldin í tilefni af afmæli gamla skjálftans og samkvæmt mexíkóskum fjölmiðlum mistúlkuðu allnokkrir skjálftaviðvaranir sem hluta æfingarinnar.


Tengdar fréttir

Manntjón og eyðilegging í Mexíkó

Á þriðja hundrað fórust í öflugum jarðskjálfta sem reið yfir Mexíkó á þriðjudag. Tala látinna hækkaði í gær og fjölmargir leita þeirra sem er saknað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×