Innlent

Hrekja athugasemdir sem birtast í kæru vegna formannskosningar SUS

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá sambandsþingi Sambands ungra Sjálfstæðismanna á Eskifirði sem haldið var dagana 8. - 10. september síðastliðinn.
Frá sambandsþingi Sambands ungra Sjálfstæðismanna á Eskifirði sem haldið var dagana 8. - 10. september síðastliðinn.
Sambandsþing Sambands ungra Sjálfstæðismanna sem og störf kjörnefndar, kjörbréfanefndar og þingforseta fóru alfarið fram í samræmi við lög SUS.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Jóhannes Stefánsson formaður kjörbréfanefndar þingsins, Ari Guðjónsson formaður kjörnefndar þingsins og Davíð Þorláksson þingforseti sendu til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins. Miðstjórn tók málið fyrir á fundi sínum í gær og var ákveðið að fresta afgreiðslu hennar og fela framkvæmdastjóra flokksins að koma með tillögu að lausn í málinu.



Greint var frá því í Vísi í gær
 að Ísak Einar Rúnarsson, sem bauð sig fram til formanns á þinginu sem haldið var á Eskifirði dagana 8. – 10. september síðastliðinn, hefði kært framkvæmd þingsins og formannskosninganna til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins ásamt 10 öðrum. Ísak beið lægri hlut í formannskjörinu fyrir Ingvar Smára Birgissyni.

Segja kæruna byggða á rangfærslum og rangtúlkunum

Þremenningarnir sem gera athugasemdina telja athugasemdir kærenda í málinu byggja á rangfærslum eða rangtúlkun á lögum SUS en athugasemdir kærenda eru allar hraktar í tilkynningunni sem send var miðstjórninni.

Í tilkynningunni kemur fram að kvartendur hefðu fengið ítrekaðar ábendingar á sambandsþinginu um að nýta sér heimild samkvæmt lögum SUS um að skjóta ákvörðunum kjörbréfanefndar til úrlausnar þingsins, en það hafi ekki verið gert.

Enginn aðstöðumunur hafi verið á milli framboða og ekkert við framkvæmda kosninganna hafi skapað ójafnræði á milli frambjóðenda.

„Allir þeir sem mættu á kjörstað og höfðu kosningarétt samkvæmt lögum SUS fengu að kjósa. Kjörbréfanefnd veitti samþykki fyrir öllum útgefnum kjörbréfum þeirra sem gáfu sig fram við nefndina,“ segir í tilkynningu þremenninganna.

Kæra Ísaks og þeirra sem að henni stóðu laut að því að réttkjörnir þingfulltrúar hafi verið hindraðir í að nýta kosningarétt sinn, þeir hafi verið hræddir og fældir burt af kjörstað. Því var jafnframt haldið fram að kosningin hafi verið skipulega sett í uppnám og framkvæmdin viðhöfð til að hafa áhrif á niðurstöðu kosninga.

Ísak Einar Rúnarsson (t.v.) og Ingvar Smári Birgisson (t.h.) kepptust um að verða næsti formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.
Segja alfarið rangt að brotið hafi verið gegn forgangsrétti aðalmanna

Því var einnig haldið fram að varamenn hefði fengið útgefin kjörbréf fyrir klukkan 12 á sunnudeginum 10. september og því hafi verið brotið gegn forgangsrétti aðalmanna.

Í tilkynningunni frá Jóhannesi, Ara og Davíð kemur fram að að þetta sé alfarið rangt. Samkvæmt lögum um SUS skulu varamenn gefa sig fram við kjörbréfanefnd þegar þeir koma til þings. Kjörbréfanefnd beri því að skrásetja hjá sér varamenn sem hafa gefið sig fram við kjörbréfanefnd, án þess þó að samþykkja kjörbréf þeirra að svo stöddu.

„Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga SUS þá geta aðalmenn einir fengið útgefin kjörbréf þar til klukkustund er til boðaðra formannskosninga. Njóta aðalmenn því forgangsréttar að útgefnum kjörbréfum á meðan þeim er enn til að dreifa, allt frá því að þing er sett og þar til klukkustund er til formannskosninga. Ef kjörbréfum er þá enn til að dreifa fá varamenn sem höfðu gefið sig fram við kjörbréfanefnd kjörbréf sín útgefin. Forgangsréttar til þeirra kjörbréfa njóta þeir varamenn sem framar eru í töluröð eins og þeir höfðu verið tilnefndir af aðildarfélögum sínum. Ef kjörbréfum er þá enn til að dreifa er þeim úthlutað til þingfulltrúa eftir þeirri röð sem þeir gefa sig fram í, og eru þá allir varamenn og aðalmenn jafngildir,“ segir í tilkynningunni.

Kjörbréfanefnd hafi farið eftir lögum SUS

Þar segir að kjörbréfanefnd hafi farið eftir lögum SUS hvað þetta snertir í einu og öllu. Aðalmenn hafi fyrsti fengir útgefin kjörbréf sín, enginn varamaður hafi fengið útgefið kjörbréf fyrr en klukkan 12:00 á kjördegi og öll kjörbréf varamanna hafi verið gefin út eftir númeraröð þeirra.

„Eftir það fengu þingfulltrúar kjörbréf sín útgefin í þeirri röð sem þeir gáfu sig fram við kjörbréfanefnd. Sigurður Helgi Birgisson, einn kvartenda, gerði engar athugasemdir þegar gerð var nákvæm yfirferð yfir þessa framkvæmd að morgni kjördags á fundi kjörbréfanefndar, eins og kemur fram í fundargerð nefndarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Mótmæla að varamenn hafi tekið þátt

Þá er því mótmælt að varamenn hafi tekið þátt í kjöri þingforseta, kjörbréfanefndar og kjörnefndar ásamt öðrum þingstörfum. Þingforseti, kjörbréfanefnd og kjörnefnd hafi verið sjálfkjörin og því hafi ekki komið til þess að halda þyrfti sérstaka atkvæðagreiðslu um mönnun þessara embætta.

Enginn ágreiningur hafi verið borinn upp í þingstörfum, afgreiðslu ályktana eða við lagabreytingatillögur. „Því kom meint þátttaka varamanna í þingstörfum aldrei til umræðu og skiptir því litlu máli í þessu samhengi.“

Hlutverk kjörbréfanefndar að kanna kjörbréf

Í tilkynningunni er sú ásökun þess efnis að kjörbréfanefnd hefði ekki haft heimild til að taka saman lista yfir vafatilvik á þingfulltrúalistanum hrakin.

„Þetta er rangt,“ segir í tilkynningunni en rakið hvernig hlutverk kjörbréfanefndar er samkvæmt lögum SUS. Í tilkynningunni kemur fram að hlutverk nefndarinnar að kanna kjörbréf þingfulltrúa. Í framhaldi slíkrar könnunar eru kjörbréfa eftir atvikum samþykkt eða þeim hafnað.

„Kjörbréf þingfulltrúa er samþykkt ef þingfulltrúi uppfyllir kjörgengisskilyrði, en ellegar er því hafnað. Kjörgengisskilyrði á sambandsþingi SUS hvíla á búsetu, aldri og félagsaðild í Sjálfstæðisflokknum. Kjörbréfanefnd fer því ótvírætt með eftirlitsskyldu skv. 3. mgr. 10. gr. laga SUS, enda væri hún annars með öllu óþörf og tilgangslaus. Þá skal bent á að kjörbréfanefnd hefur áður þurft að framkvæma nánari skoðun á kjörgengisskilyrðum þingfulltrúa þegar vafi lék á kjörgengisskilyrðum á sambandsþingi SUS.“

93 vafatilvik voru merkt á kjörskrána og þurftu þeir sem þar voru merktir að fara fyrir kjörbréfanefnd og svara spurningum um búsetu sína.
Opinber staðfesting á málamynda lögheimilisflutningum

Í aðdraganda sambandsþings SUS hafi birst opinber staðfesting á því að einhverjir þingfulltrúar hefðu flutt lögheimili sín til málamynda og að það hafi verið gert að beiðni frambjóðenda.

„Til að mynda kom fram í frétt á Vísir.is þann 1. september 2017 að nafngreindur þingfulltrúi hefði orðið við ósk ónafngreinds frambjóðanda um að flytja lögheimili sitt til málamynda að Álftamýri 73, til þess eins að geta hlotið tilnefningu Heimdallar til þingsetu. Í sömu frétt var haft eftir kosningastjóra Ísaks Rúnarssonar að hann væri húsráðandi á sama stað (þrátt fyrir að hafa lögheimili sitt skráð að Gautlandi 9 samkvæmt Þjóðskrá Íslands). Þá var haft eftir Ingvari Smára Birgissyni í frétt á Vísi þann 8. september 2017 að hann hefði óskað eftir því við ónafngreinda stuðningsmenn sína að þeir flyttu lögheimili sín í sama tilgangi og að framan greinir,“ segir í tilkynningunni.

Í henni er rakið að samkvæmt lögum um lögheimili er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Föst búseta sé, samkvæmt lögunum, búseta þar sem maður hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstað.

„Bent skal á að það hefur komið fram í dómum Hæstaréttar að opinber lögheimilisskráning sé ekki bindandi, sbr. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 250/2012. Það er því ljóst af lögum og dómafordæmum Hæstaréttar að tilkynning til Þjóðskrár Íslands um lögheimilisflutning til málamynda hefur engin áhrif á hvar lögheimili manns sé í raun og veru og getur slík skráning því ekki verið bindandi. Aftur á móti verður að telja að brot á 1. mgr. 1. gr. Lögheimilislaga með tilhæfulausum lögheimilisflutningi til þess að falsa kjörgengisskilyrði geti talist kosningasvindl, ekki hvað síst ef slíkum aðferðum er beitt í miklum mæli.“

Í tilkynningunni segir að formaður kjörbréfanefndar hafi lagt til á fundi kjörbréfanefndar að í tilfellum þar sem vafi léki á kjörgengisskilyrðum yrði viðkomandi þingfulltrúi beðinn um að koma á fund kjörbréfanefndar þar sem vafa um kjörgengisskilyrði yrði aflétt.

„Vegna þess að fyrirséð var að mikill fjöldi þingfulltrúa myndi koma með rútum og flugvélum til kosninga þann dag var lagt til að fundir kjörbréfanefndar með þingfulltrúum myndu fara fram að lokinni almennri afgreiðslu kjörbréfa. Formaður kjörbréfanefndar stakk upp á því að lagt yrði til við kjörstjórn að kosningu yrði fram haldið þar til allir sem kæmu á fund kjörbréfanefndar og fengju samþykkt kjörbréf ættu þess kost að kjósa. Tillagan var samþykkt af meirihluta kjörbréfanefndar. Minnihluti kjörbréfanefndar kaus að skjóta þeirri ákvörðun ekki til úrlausnar þingsins skv. 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laga SUS, þrátt fyrir að hafa fengið ábendingu þar um.“

Nefndinni ekki stætt á öðru en að gegna skyldu sinni

Segir í tilkynningunni að þar sem kjörbréfanefnd hefði haft opinbera staðfestingu á því að þingfulltrúar hefðu flutt lögheimili sín til málamynda og hins vegar gögn um þá þingfulltrúa sem höfðu tilkynnt um breytt lögheimili skömmu í aðdraganda þingsins, hefði nefndinni ekki verið stætt á neinu öðru en að gegna skyldu sinni samkvæmt lögum SUS.

„Þess ber þó að geta að engum var á endanum meinað um að taka þátt í formannskjöri á þeim grundvelli að hann væri ekki talinn hafa fasta búsetu á sama stað og hann hefði skráð lögheimili samkvæmt Þjóðskrá. Þessi framkvæmd kjörbréfanefndar hafði þar að auki engin áhrif á boðaðar kosningar, sem lauk á undan auglýstri dagskrá.“

Ekki reynt að skapa aðstöðumun

Þá segir í tilkynningunni að það sé rangt að vafatilvikin og frekari könnuna á þeim hafi verið til að skapa aðstöðumun á milli frambjóðenda. Það sé einnig rangt að mun fleiri stuðningsmenn Ísaks en Ingvar hafi verið flokkaðir sem vafatilvik.

„Kjörbréfanefnd fór ekki í neitt manngreinarálit þegar ákveðið var á fundi nefndarinnar kl 10:45 að kjörgengisskilyrði þörfnuðust nánari skoðunar við. Eini tilgangurinn með könnun á kjörgengisskilyrðum var að fullnægja skyldum kjörbréfanefndar samkvæmt lögum SUS, en að öðrum kosti hefði nefndin vanrækt hlutverk sitt og þar með hefði mátt draga störf hennar í efa. Ef það er rétt sem kvartendur halda fram að tilhæfulausir lögheimilisflutningar til að falsa kjörgengisskilyrði og taka þátt í kosningasvindli hafi frekar átt við um stuðningsmenn Ísaks Rúnarssonar þá er þar augljóslega ekki við kjörbréfanefnd að sakast.“

Sambandsþingið var haldið á Eskifirði.Vísir/GVA
Mótmæla harðlega að átt hafi verið við kjörskrá

Þá er því harðlega mótmælt sem röngu að kjörbréfanefnd kunni að hafa átt við kjörskrá þar sem einn aðili þurfti margítrekað að fara til nefndarinnar áður en hann fékk kjörbréf.

„Á fund kjörbréfanefndar leituðu þrír einstaklingar sem ekki höfðu fundist á kjörskrá við almenna afgreiðslu kjörbréfa. Þeim hafði verið bent á að koma á fund nefndarinnar ef þeir teldu sig hafa átt að vera á kjörskrá. Í tveimur tilfellum kom í ljós að viðkomandi voru ekki skráðir í Sjálfstæðisflokkinn og hafði því verið hafnað um þingsæti af stjórn SUS, og því ekki skráðir á kjörskrá. Svo virðist sem formanni þess aðildarfélags sem óskaði eftir tilnefningu þeirra hafi láðst að upplýsa fulltrúana um að tilnefningar þeirra hafi ekki verið samþykktar af stjórn SUS.

„Í einu tilfelli kom í ljós að nafn fulltrúa, sem hafði verið tilnefndur af stjórn Hávarr, hafði verið misritað þegar tilnefningar voru sendar stjórn SUS í aðdraganda þingsins. Við leit á kjörskrá hafði viðkomandi því ekki fundist. Fulltrúinn framvísaði gildu kjörbréfi frá formanni aðildarfélags síns, að ábendingu kjörbréfanefndar, og var kjörbréfið samþykkt af nefndinni,“ segir í tilkynningunni.

Ekki við kjörbréfanefnd að sakast

Þá er því harðlega mótmælt að kjörbréfanefnd hafi tafið útgáfu kjörbréfa, í ljósi ásakana þess efnis að það hefði gengið alltof seint að skrá inn þingfulltrúa og þeir sem hafi verið mættir á kjörstað fyrir klukkan 12 á sunnudeginum hefðu átt að halda forgangsrétti fram yfir varamenn.

„Í 3. mgr. 10. gr. laga SUS er kveðið á um að kjörbréfanefnd skuli skipuð þremur mönnum. Kjörbréfanefnd var kosin við þingsetningu og tók til starfa kl. 10:00 þann 9. september. Kjörbréfanefnd starfaði samhliða auglýstum þingstörfum. Aðalmenn höfðu því rúman tíma til að innleysa kjörbréf sín og varamenn til að gera grein fyrir sér. Það er ekki við kjörbréfanefnd að sakast að frambjóðendur hafi kosið að keyra nær öllum stuðningsmönnum sínum á kjörstað í rútum um það leyti sem formannskosning átti að hefjast, en eðli máls samkvæmt myndast langar raðir þegar frambjóðendur hafa þann háttinn á. Þá skal á það bent að Sigurður Helgi Birgisson lagði aldrei til á fundum kjörbréfanefndar að fleiri skyldu fengnir til afgreiðslu f.h. nefndarinnar. Aukinheldur ákvað kjörbréfanefnd við afgreiðslu kjörbréfa að bæta við starfsfólki til að flýta fyrir afgreiðslu kjörbréfa. Eðli máls samkvæmt tók nokkurn tíma að taka við skráningum á þingið frá mörghundruð manns þrátt fyrir að allt hafi verið gert til að hraða störfum nefndarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur fram að að forgangsréttur aðalmanna falli úr gildi klukkustund fyrir þann tíma sem formannskosning er fyrirhuguð, það er klukkan 12 á sunnudeginum.

„Í samræmi við þessa skýru lagaskyldu var þá þegar farið í það að úthluta kjörbréfum til þeirra varamanna sem höfðu gert grein fyrir sér, í þeirri röð sem þeir höfðu verið tilnefndir af aðildarfélagi sínu. Einungis var um 1-2 tilfelli að ræða þar sem jafnsettur varamaður hafði leyst út kjörbréf aðalmanns í samræmi við lokamálslið 2. mgr. 9. gr. laga SUS, vegna þess að aðalmaður hafði ekki gefið sig fram við kjörbréfanefnd þegar klukkustund var til fyrirhugaðrar formannskosningar. Þessi framkvæmd er í fullu samræmi við lög SUS,“ segir í tilkynningunni.

Lá fyrir að nefndarmenn myndu gefa út kjörbréf til sjálfs síns

Þá segja þremenningarnir sem að tilkynningunni standa að það sé rangt að formaður kjörbréfanefndar hafi bætt sjálfum sér á kjörskrá eftir að skránni hafði verið lokað.

„Formaður kjörbréfanefndar hafði gert grein fyrir sér sem varamaður á þingið og var hann því hluti af þeim varamönnum sem kjörbréfanefnd tilkynnti kjörstjórn að höfðu gefið sig fram kl. 12 á sunnudeginum. Það lá jafnframt fyrir frá upphafi að nefndarmenn kjörbréfanefndar myndu ljúka störfum með því að gefa út kjörbréf til sjálfs síns og að kjörfundi yrði ekki slitið fyrr en þeir hefðu kosið,“ segir í tilkynningunni.

Skólinn og félagsheimilið hlið við hlið

Í kærunni kom fram að auglýst hefði verið á Facebook-viðburði að kosning færi fram í Valhöll en ekki Grunnskóla Eskifjarðar. Í tilkynningunni þar sem kærunni er svarað er tekið fram að félagsheimilið Valhöll og Grunnskóli Eskifjarðar séu við hliðina á hvort öðru og því ekki til þess fallið að valda misskilningi.

Bent er á að kjörnefnd þingsins hefði tekið til starfa á föstudeginum 8. september. Þegar kjörnefnd hafi verið kunnugt um að kosning færi fram í Grunnskóla Eskifjarðar hafi verið óskað eftir því að þingforseti myndi lesa upp tilkynningu frá kjörnefnd þar sem kæmi fram hvar og hvenær formannskjör færi fram og að sérstök athygli yrði vakin á því að kosningin færi ekki fram í Valhöll líkt og auglýst hafði verið. Þessi tilkynning hefði verið lesin upp af þingforseta við störf þingsins laugardaginn 9. september.

Segja vafatilvik hafa haldið forgangsrétti sínum

Í kærunni var haldið fram að kjörnefnd hefði hafið kosningar til formanns áður en kjörbréfanefnd hefði verið búin að skera úr um óvissu um kjörgengi þeirra fulltrúa sem skráðir höfðu verið sem vafatilvik.

Í tilkynningunni er rakið að formannskjörið hefði verið fyrirhugað klukkan 13 á sunnudeginum samkvæmt auglýsingu. Kosningunni til formanns hefði verið hleypt af stað klukkan 13:25, það er 25 mínútum eftir auglýstan tíma.

„Á þeim tímapunkti hafði kjörnefnd fengið lista frá kjörbréfanefnd yfir þá þingfulltrúa sem þegar höfðu verið staðfestir á kjörskrá. Jafnframt fékk kjörnefnd skoðunaraðgang að skjali með upplýsingum sem bárust í rauntíma frá kjörbréfanefnd þar sem komu fram staðfestingar á því hvort aðili hefði kosningarétt og gat jafnframt haft beint samband við kjörbréfanefnd til að afla nauðsynlegra upplýsinga. Kjörnefnd taldi því enga ástæðu til þess að fresta formannskjöri enn frekar enda var ljóst að kosningin myndi taka langan tíma og einnig yrði beðið eftir því að kjörbréfanefnd myndi ljúka störfum áður en kjörfundi yrði slitið. Þá fékk enginn varamaður að kjósa nema staðfest væri að hann hefði hlotið forgang yfir nægjanlegan fjölda aðalmanna og rétthærri varamanna. Það ber að taka fram að þeir sem flokkaðir höfðu verið sem “vafatilvik” héldu forgangsrétti sínum yfir varamönnum svo lengi sem þeir skráðu sig inn á þingið fyrir kl. 12 á sunnudeginum,“ segir í tilkynningunni.

Líkt og fyrr segir var framkvæmdin og formannskosningin kærð til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins sem tók hana fyrir á fundi sínum í gær. Var ákveðið að fresta málinu fram að næsta miðstjórnarfundi en framkvæmdastjóra flokksins, Þórði Þórarinssyni, var falið að koma með tillögu að úrlausn málsins þangað til.


Tengdar fréttir

Leyndardómsfullir fólksflutningar í aðdraganda formannskosninga

Sjö ungir menn, sem allir bjuggu áður í öðrum bæjarfélögum, hafa flutt lögheimili sitt að Álftamýri 73 í Reykjavík í aðdraganda sambandsþings Sambands ungra sjálfstæðismanna, SUS, sem haldið verður helgina 8.-10. september.

Fimm aðildarfélög SUS hyggjast segja sig úr sambandinu

Ingvar Smári, sem býður sig fram til formanns segir að "stjórn Heimdallar, félags ungra Sjálf­stæðismanna í Reykjavík, sem leynt og ljóst styður framboð Ísaks Rúnarssonar, til formennsku gætti þess við val á lista sinn að útiloka þá frá þinginu sem ekki eru yfirlýstir stuðningsmenn hans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×