Enski boltinn

Aron Einar í úrvalsliði ensku B-deildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar hefur haldið uppteknum hætti frá síðasta tímabili.
Aron Einar hefur haldið uppteknum hætti frá síðasta tímabili. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson hefur spilað stórvel fyrir Cardiff City síðan Neil Warnock tók við þjálfun liðsins fyrir tæpu ári.

Aron Einar var valinn leikmaður ársins hjá Cardiff á síðasta tímabili og hefur haldið uppteknum hætti í upphafi þessa tímabils.

Aron Einar hefur leikið alla átta leiki Cardiff sem situr í 3. sæti ensku B-deildarinnar með 17 stig, jafn mörg og Leeds United og Wolves sem eru í sætunum fyrir ofan.

Aron Einar er með 7,43 í meðaleinkunn hjá tölfræðisíðunni WhoScored.com fyrir frammistöðu sína í upphafi tímabils. Og landsliðsfyrirliðinn er í úrvalsliði fyrstu átta umferðanna hjá WhoScored.

Aron Einar vinnur 2,8 tæklingar, nær boltanum 3,4 sinnum, er með 3 hreinsanir og vinnur 1,8 skallaeinvígi að meðaltali í leik. Þá hefur Akureyingurinn lagt upp eitt mark á tímabilinu.

Ekki amaleg frammistaða hjá landsliðsfyrirliðanum sem hefur verið í herbúðum Cardiff síðan 2011.

Næsti leikur Cardiff er gegn Sunderland á laugardaginn.

Úrvalslið ensku B-deildarinnar.mynd/skjáskot af Whoscored.com



Fleiri fréttir

Sjá meira


×