Erlent

Níkaragva ætlar að skilja Bandaríkin og Sýrland ein utan Parísarsamkomulagsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Gamli sandínistinn Daniel Ortega er forseti Níkaragva.
Gamli sandínistinn Daniel Ortega er forseti Níkaragva.
Ríkisstjórn Níkaragva hefur tilkynnt að hún hyggist skrifa undir Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum. Verði af því munu Bandaríkin og Sýrland standa ein ríkja heims utan samkomulagsins.

Daniel Ortega, forseti Níkaragva, sagði á mánudag að hann hygðist skrifa undir samkomulagið til að „sýna samstöðu“ með ríkjum sem verða fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga í Afríku, Asíu, Rómönsku Ameríku og Karíbahafi.

„Við munum brátt taka þátt, við munum skrifa undir Parísarsamkomulagið. Við höfum þegar átt fundi til að ræða málið og við höfum þegar áætlað aðild Níkaragva,“ sagði Ortega.

Mið-Ameríkuríkið tók upphaflega ekki þátt í samkomulaginu sögulega þar sem þarlend stjórnvöld töldu það ekki ganga nógu langt í að berjast gegn loftslagsbreytingum af völdum manna.

Sýrland tók ekki þátt í viðræðum fyrir Parísarsamkomulagið árið 2015 en þar hefur blóðugt borgarastríð geisað frá 2011.

Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta lýsti því yfir í sumar að hún hygðist draga sig út úr samkomulaginu. Það getur hún þó ekki gert formlega fyrr en í nóvember árið 2019 og tekur útgöngutímabilið þá eitt ár, samkvæmt frétt Newsweek.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×