Íslenski boltinn

Jugovic: Í fyrsta sinn sem þetta heppnast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Igor Jugovic í leiknum í dag.
Igor Jugovic í leiknum í dag. vísir/eyþór
Igor Jugovic var hetja Fjölnis þegar liðið lagði FH að velli, 2-1, í Pepsi-deild karla í kvöld. Sigurinn var afar mikilvægur fyrir Fjölnismenn sem eru núna fjórum stigum frá fallsæti þegar tvær umferðir eru eftir.

„Þetta var sanngjarn sigur. Við skoruðum tvö mörk og áttum 3-4 góð færi til viðbótar. FH átti kannski tvö færi. Þetta var 100% sanngjarnt,“ sagði Jugovic.

Fyrra mark hans var afar fallegt en hann lyfti boltanum þá yfir Gunnar Nielsen, markvörð FH, af 40 metra færi.

„Við pressuðum og ég sá að markvörðurinn átti slæma spyrnu og var kominn út úr markinu. Ég hugsa mikið um þetta. Þegar leikurinn byrjar vil ég vippa yfir markvörðinn. Ég skýt kannski 10 sinnum á tímabili en þetta er í fyrsta sinn sem það heppnast. Þetta var nokkuð gott mark,“ sagði Jugovic sem skoraði sigurmark Fjölnis með öðru góðu skoti mínútu fyrir leikslok.

„Þetta var eini staðurinn þar sem ég gat sett boltann. Það var mikið af leikmönnum vinstra og ef ég hefði skotið þangað hefði boltinn farið í einhvern. Fyrir markvörðinn er þetta versti staðurinn,“ sagði Jugovic að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×