Innlent

Mjaltakona fær 1,7 milljónir í vangoldin laun

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Konan starfaði við mjaltir á kúabúi að Grund í Eyjafirði
Konan starfaði við mjaltir á kúabúi að Grund í Eyjafirði Vísir/Stefán
Hæstiréttur dæmdi í dag fyrirtækið Ljósaborg ehf skylt til að borga konu, sem hafði starfað hjá fyrirtækinu, vangoldin laun upp á 1.684.913 milljónir króna.

Konan starfaði við mjaltir á kúabúi að Grund í Eyjafirði frá 1. september 2013 þar til samið var um starfslok hennar þann 11. júlí árið 2015. Sá konan sjálf um að skrá vinnutíma sína í dagbók búsins og þá bar hún einnig ábyrgð á að koma upplýsingum um vinnustundir til yfirmanns síns í lok hvers mánaðar.

Ekki gerður skriflegur ráðningarsamningur

Samkvæmt launaseðili konunnar frá maí 2014 voru samtals 75,6 yfirvinnutímar dregnir frá launum hennar vegna apríl mánaðar og 5,5 tímar vegna maímánaðar 2014. Leitaði konan réttar síns og komst að þvi að útreikningur launa hennar hafi ekki verið samkvæmt kjarasamningum.

Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við konuna og var deilt um hvort samið hefði verið um rofinn vinnutíma. Í kjarasamingum um kaup og kjör starfsmanna sem vinna við almenn landbúnaðarstörf er kveðið á um að í ráðningarsamningi skuli koma fram ef sérstaklega væri samið um vinnutíma, meðal annars rofinn vinnutíma. Talið var að það væri á herðum Ljósaborgar að sanna hvort samið hefði verið eða ekki og hafi það ekki verið gert.

Sem fyrr segir er fyrirtækinu skylt að borga konunni tæpar 1,7 miljónir króna og þá var því einnig gert að greiða konunni samtals 1,5 milljónir í málskostnað bæði í héraðsdómi og fyrir Hæstarétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×