Erlent

Segir hinn „elliæra“ Trump hafa sannfært sig um að halda áfram

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Yfirlýsing Kim Jong-un í nótt er talin vera sú fyrsta í sögunni þar sem leiðtogi Norður-Kóreu beinir orðum sínum að alþjóðasamfélaginu.
Yfirlýsing Kim Jong-un í nótt er talin vera sú fyrsta í sögunni þar sem leiðtogi Norður-Kóreu beinir orðum sínum að alþjóðasamfélaginu. KCNA
Kim Jong-un, segir að ummæli hins „brjálaða“ og „elliæra“ Bandaríkjaforseta staðfesti nauðsyn þess að Norður-Kórea haldi áfram kjarnorkuvopnaáætlun sinni. Donald Trump muni gjalda fyrir ræðuna sem hann flutti fyrir Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna á dögunum.

Þetta var megininntak yfirlýsingar Kims sem hann las upp í ríkissjónvarpi Norður-Kóreu í gærkvöldi. Sérfræðingar telja að þetta sé fyrsta ræða sem leiðtogi Norður-Kóreu flytur með alþjóðasamfélagið í huga. Þar vísaði hann til óvenju herskárrar ræðu Trumps á þriðjudag þar sem Bandaríkjaforseti var harðorður í garð Norður-Kóreu.

Sjá einnig: Trump harðorður í garð Norður-Kóreu og Íran

Varaði hann ríkið við að ögra bandamönnum Bandaríkjanna. „Við munum eiga þann eina kost að gereyða Norður-Kóreu. Eldflaugamaðurinn (e. Rocketman) er í sjálfsmorðshugleiðingum fyrir sig og ríkisstjórn sína,“ sagði Trump og beindi orðum sínum að Kim Jong-un.

Leiðtogi Norður-Kóreu segir í yfirlýsingu sinni að ræða Trump hafi sannfært sig um að sú leið sem þjóð hans hefur valið sé sú rétta. Digurbarkaleg ræða Bandaríkjaforseta hafi ekki hrætt hann og muni hann fylgja kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu allt til enda.

Hér að neðan má sjá brot úr ræðu Trumps á þriðjudag.

„Nú þegar Trump hefur móðgað mig og þjóð mína frammi fyrir öllum heiminum í hatrömmustu stríðsyfirlýsingu allra tíma“ mun Norður-Kórea íhuga „hörðustu gagnaðgerðir“ svo að Trump muni „gjalda fyrir ræðu sína.“

Lauk Kim yfirlýsingu sinni á því að segja að vopnabúr hans muni ná að temja hinn elliæra og brjálaða Bandaríkjamann.

Sjá einnig: Trump geltandi hundur í augum Norður-Kóreu

Utanríkisráðherra Norður-Kóreu, Ri Yong-ho, sagði í samtali við fjölmiðla í gær að þjóð hans muni halda áfram að þróa langdrægar eldflaugar og kjarnaodda, þrátt fyrir hertar viðskiptaþvinganir alþjóðasamfélagsins. „Það er málsháttur sem segir: Þó svo að hundurinn gelti heldur skrúðgangan áfram,“ sagði utanríkisráðherrann um fyrrnefnda ræðu Trumps.

„Ef hann [Trump] hélt að hann gæti látið okkur bregða með hundsgelti þá er hann að dreyma.“ Aðspurður um hvað honum þætti um að Trump hefði kallað Kim Jong-un Eldflaugamann svaraði ráðherrann. „Ég vorkenni aðstoðarmönnum hans.“

Ri Yong-ho mun halda ræðu á Allsherjarþinginu síðar í dag.

 


Tengdar fréttir

Harðari þvinganir gegn Norður-Kóreu

Bandaríkjaforseti undirritaði í gær tilskipun um nýjar viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu. Kínverskum bönkum gert að hætta viðskiptum við nágrannaríkið. Utanríkisráðherra Norður-Kóreu líkti Bandaríkjaforseta við geltandi hund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×