Fótbolti

Dani Alves segir Forlán að halda kjafti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brassarnir Neymar og Dani Alves.
Brassarnir Neymar og Dani Alves. vísir/getty
Dani Alves, leikmaður Paris Saint-Germain, hefur sagt Diego Forlán að halda kjafti eftir að Úrúgvæinn gagnrýndi Alves fyrir þátt hans í deilu Edinsons Cavani og Neymars.

Í leik leik PSG og Lyon um helgina rifust Cavani og Neymar fyrst um hvor þeirra ætti að taka aukaspyrnu og svo vítaspyrnu. Alves blandaði sér í málið og virtist rétta Neymar boltann svo hann gæti tekið aukaspyrnuna. PSG vann leikinn 2-0 en bæði mörkin voru sjálfsmörk.

Forlán kom landa sínum til varnar og gagnrýndi Alves fyrir hans aðkomu að málinu.

„Þetta var óskiljanlegt hjá Alves. Hann lét Cavani ekki fá boltann heldur Neymar,“ sagði Neymar.

Diego Forlán og Edinson Cavani spiluðu lengi saman í framlínu úrúgvæska landsliðsins.vísir/getty
„Cavani á skilið virðingu. Hann hefur skorað mörk undanfarin ár og tekið vítaspyrnur. Það verður að vera virðing. Neymar hefði ekki gert þetta við [Lionel] Messi. Hann vildi ekki að Cavani tæki vítið. Hann var eins og lítill strákur að pirra hann.“

Alves tók til varna á Twitter og lét Forlán heyra það.

„Ég veit ekki hvaða leik þú varst að horfa á en bara svo þú vitir tók ég ekki boltann af liðsfélaga mínum. Þetta var öfugt, boltinn var tekinn af mér. Svo haltu kjafti og hættu að búa til drama í mínu nafni,“ skrifaði Alves.

Brasilíumaðurinn á að hafa skipulagt kvöldverð í vikunni þar sem Cavani og Neymar mættu báðir. PSG sækir Montpellier heim á morgun og þá kemur væntanlega í ljós hvort Cavani og Neymar hafi slíðrað sverðin.


Tengdar fréttir

Valdabarátta vandamál í París

Neymar og Edinson Cavani sáust rífast yfir hver ætti að taka spyrnur franska stórveldisins PSG í leik liðsins og Lyon í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×