Erlent

Eitraða vatnið í Flint leiddi til „hræðilegrar aukningar“ í fósturláti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íbúar í Flint mótmæltu harðlega hvernig komið var fram við þá. Ljóst er að afleiðingarnar af mengaða vatninu eru hræðilegar.
Íbúar í Flint mótmæltu harðlega hvernig komið var fram við þá. Ljóst er að afleiðingarnar af mengaða vatninu eru hræðilegar. vísir/getty
Frjósemi í borginni Flint í Michigan varð marktækt minni eftir að ákveðið var að skipta yfir í blýmengað vatn árið 2014. Þetta er meðal niðurstaðna í rannsókn á áhrifum mengunarinnar.

Þar segir að hnignunina megi aðallega rekja til þess að veikustu fóstrin hafi orðið fyrir skaða sem hafi leitt til „hræðilegrar aukningar“ á fósturdauða og fósturláti.

Á bilinu 198 til 276 fleiri börn hefðu fæðst, sé miðað við þau sem voru getin á bilinu nóvember 2013 til mars 2015, hefðu yfirvöld í Flint ekki ákveðið að skipta yfir í vatnið sem reyndist blýmengað. Enn er verið að vinna úr rannsókninni en höfundar greinarinnar sem er væntanleg eru heilsuhagfræðingarnir Daniel Grossman við West Virginia háskólann og David Slusky við Kansas háskóla.

Íbúi í Flint fær vatnsflöskur að gjöf frá hjálparsamtökum eftir að málið komst í hámæli.vísir/getty
Í apríl 2014 var ákveðið að tengja neysluvatnskerfið í Flint við samnefnda á, Flint ána. Um tímabundna ráðstöfun til að spara peninga var að ræða á meðan unnið yrði að gerð nýrrar lagnar frá Huron vatni, í nágrenninu. Strax eftir breytinguna fór að bera á kvörtunum um lykt og útlit vatnsins en vel fram á næsta ár svöruðu yfirvöld því til að vatnið væri hættulaust til neyslu.

Rannsóknir yfirvalda í Flint og annarra stofnana leiddu í ljós að blýmagn í vatninu var í sumum tilfellum tugfalt eða hundraðfalt yfir leyfilegum mörkum Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna. Rannsókn frá september 2015 sýndi að fjöldi barna með hátt magns blýs í blóði sínu tvöfaldaðist eftir að breytinguna á neysluvatninu. Það var ekki fyrr en í október 2015 að íbúar fengu aftur vatn úr Huron stöðuvatninu.

Að neðan má sjá upplýsandi innslag John Oliver frá því í apríl í fyrra um ástandið í Flint.

Neikvæð áhrif blýs á heilsu barna eru vel þekkt. Lægri greind, andfélagsleg hegðun, minni sókn í menntun og ýmis önnur vandamál sem hafa áhrif á heila, nýru og lifur. Áhrif á fóstur eru minna þekkt en niðurstöður nýju rannsóknarinnar benda til þeirra.

Vísir fjallaði ítarlega um málið á sínum tíma. Hér má lesa fréttaskýringu um málið frá því í fyrra, Ameríski draumurinn sem varð að drykkjarvatni.


Tengdar fréttir

Þrír ákærðir í Flint

Saksóknarar segja von á fleiri ákærum vegna vatnsmengunarinnar í Flint í Bandaríkjunum.

Ameríski draumurinn sem varð að eitruðu drykkjarvatni

Það var vorið 2014 sem að íbúar í borginni Flint í Michigan í Bandaríkjunum fóru að taka eftir því að vatnið sem kom úr krananum í íbúðum þeirra lyktaði illa og var stundum blátt, grænt eða brúnt á litinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×