Enski boltinn

Woodward: Facebook mun bjóða í sjónvarpsréttinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Verður enska úrvalsdeildin sýnd á Facebook í framtíðinni?
Verður enska úrvalsdeildin sýnd á Facebook í framtíðinni? vísir/getty
Ed Woodward, stjórnarformaður Manchester United, segir að Amazon og Facebook muni bjóða í sjónvarpsréttinn á ensku úrvalsdeildinni.

Núverandi samningur við Sky Sports og BT Sport rennur út árið 2019 en útboð á sjónvarpsréttinum fer væntanlega fram á næstu mánuðum.

Woodward telur að Amazon, Facebook og fleiri netrisar muni gera sig gildandi í baráttunni um sjónvarpsréttinn að ensku úrvalsdeildinni.

Ed Woodward er stjórnarformaður Manchester United.vísir/getty
„Ég held að þeir muni blanda sér í slaginn. Áhuginn var líka til staðar síðast,“ sagði Woodward á fundi með fjárfestum eftir að United kynnti fjárhagsuppgjör félagsins í ár.

„Við heyrum þetta frá liðunum í ensku úrvalsdeildinni. Það er líka áhugi á Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni,“ bætti Woodward við.

Daily Mail greindi frá því í vikunni að Amazon myndi líklega bjóða í sjónvarpsréttinn að ensku úrvalsdeildinni. Amazon sýnir leiki í NFL-deildinni og hefur tryggt sér sjónvarpsréttinn á ATP-mótaröðinni í tennis.

Sjónvarpsréttarsamningurinn sem er núna í gildi er 5,14 milljarða punda virði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×