Enski boltinn

Hversu fljótir verða þeir að taka þetta niður á Stamford Bridge?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte og Dirego Costa.
Antonio Conte og Dirego Costa. Vísir/Getty
Fjölmiðlamaðurinn Oliver Harbord sem skrifar um Chelsea-liðið fyrir fótboltasíðuna Football.London tók eftir einu þegar hann mætti á blaðamannafund með knattspyrnustjóranum Antonio Conte í dag.

Risastór mynd af Diego Costa með Englandsbikarinn frá því síðasta vor blasti við Harbord sem og öðrum fjölmiðlamönnum þegar hann mætti á Brúna.

Diego Costa hefur hvorki æft nér spilað með liði Chelsea frá lok síðustu leiktíð þrátt fyrir að hafa skoraði 20 mörk og lagt upp önnur átta til viðbótar á meistaratímabili Chelsea 2016-17. Liðið fékk 2,4 stig að meðaltali í þeim 35 leikjum sem hann spilaði í ensku úrvalsdeildinni í fyrravetur.

Það breytti því þó ekki að knattspyrnustjórinn Antonio Conte vildi ekki sjá hann lengur.





Chelsea er nú búið að selja framherjann aftur til Atletico Madrid. Hann varð tvisvar meistari með Chelsea og skoraði alls 52 mörk í 89 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.  

Antonio Conte þurfti að sjálfsögðu að svara spurningum um Diego Costa á blaðamannafundinum.

„Við viljum þakka honum fyrir það sem hann gerði fyrir þennan klúbb. Við óskum honum alls hins besta,“ sagði Antonio Conte en hvað með samband hans og Costa?

„Það skiptir ekki máli. Ég hef ekki áhuga á því að halda áfram að tala um þetta mál. Ég er að vinna með mínum leikmönnum og er ánægður að vinna með þeim. Það er það sem skiptir máli,“ sagði Conte.

En hefur Diego Costa eyðilagt stöðu sína í sögu Chelsea? „Ég hef ekki áhuga á að tala um fortíðina því hún skiptir ekki máli. Við unnum saman á síðasta tímabili og ég vil aftur þakka honum fyrir framlag hans á síðasta tímabili og þann tíma sem hann spilaði með Chelsea,“ sagði Conte.

Síðasta mark Diego Costa fyrir Chelsea kom í 3-0 sigri á Middlesbrough 6. maí 2017 en liðið svo gott sem tryggði sér endanlega titilinn í þeim leik.

Diego Costa hefur skorað yfir tuttugu deildarmörk á þremur af síðustu fjórum tímabilum sínum í boltanum og í öll þrjú skipti hafa lið hans orðið meistari. (Atlético Madrid 2014 og Chelsea bæði 2015 og 2017).

Myndin verður samt fljót að fara niður ef Oliver Harbord hefur rétt fyrir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×