Fótbolti

Ronaldo, Messi og Neymar koma til greina sem sá besti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo skoraði tvö mörk í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem Real Madrid vann Juventus 4-1.
Cristiano Ronaldo skoraði tvö mörk í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem Real Madrid vann Juventus 4-1. vísir/getty
Cristiano Ronaldo, Lionel Messi og Neymar koma til greina sem besti leikmaður heims hjá FIFA.

Ronaldo vann þessi verðlaun í fyrra og þykir líklegur til að vinna þau aftur í ár. Á tímabilinu sem verðlaunin eru veitt fyrir, frá 20. nóvember 2016 til 2. júlí 2017, vann Ronaldo spænska meistaratitilinn, Meistaradeild Evrópu, Ofurbikar Evrópu og heimsmeistarakeppni félagsliða með Real Madrid og brons með portúgalska landsliðinu í Álfukeppninni.

Ronaldo fékk 34,5% atkvæða í kjörinu í fyrra. Messi varð í 2. sæti (26,4%) og Antoine Griezmann í því þriðja (7,5%).

Þjálfari Ronaldos hjá Real Madrid, Zinédine Zidane, kemur til greina sem þjálfari ársins ásamt Massimiliano Allegri hjá Juventus og Antonio Conte hjá Chelsea.

Zidane þykir líklegastur til að hreppa hnossið en hann hefur náð frábærum árangri með Real Madrid síðan hann tók við liðinu í ársbyrjun 2016.

Gianluigi Buffon, Manuel Neuer og Kaylor Navas koma greina sem markvörður ársins.

Carli Lloyd, Deyna Castellanos og Lieke Martens koma til greina sem besti leikmaður heims í kvennaflokki. Lloyd vann til þessara verðlauna í fyrra.

Verðlaunafhendingin fer fram í London 23. október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×