Innlent

Krefjast vikulangs gæsluvarðhalds yfir manninum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn huldi ekki andlit sitt fyrir myndavélum fjölmiðla þegar hann var leiddur fyrir dómara í dag.
Maðurinn huldi ekki andlit sitt fyrir myndavélum fjölmiðla þegar hann var leiddur fyrir dómara í dag. vísir/anton brink
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer fram á vikulangt gæsluvarðhald yfir erlendum karlmanni sem grunaður er um að hafa orðið konu að bana á heimili hennar við Hagamel í Reykjavík í gærkvöldi.

Maðurinn var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur upp úr klukkan þrjú í dag. Krafan er sett fram á grundvelli rannsóknarhagsmuna en það að ekki sé farið fram á lengra gæsluvarðhald en viku bendir til þess að rannsókn lögreglu sé langt komin og að atburðarásin liggi nokkuð skýr fyrir.

Tveir menn voru handteknir í risíbúð við Hagamel í gærkvöldi. Konan bjó í íbúðinni og annar mannanna einnig. Hann er íslenskur og verður sleppt úr haldi síðar í dag.

Frá vettvangi á Hagamel í gærkvöldi.Vísir
Maðurinn sem leiddur var fyrir dómara í dag er á fertugsaldri. Konan sem hann er grunaður um að hafa orðið að bana var flutt alvarlega slösuð á slysadeild Landspítalans í gærkvöldi þar sem hún var úrskurðuð látin. Hún var af erlendu bergi brotin og á fimmtugsaldri. 

Talið er að einhvers konar vopni eða áhaldi hafi verið beitt við árásina sem leiddi til dauða hennar. Lögregla hefur ekki viljað gefa upp hvers kyns vopnið er. 

Vísir greindi frá því fyrr í dag, og hafði eftir sjónarvottum sem voru fjölmargir við Hagamel í gærkvöldi, að maðurinn sem grunaður er í málinu hafi látið öllum illum látum þegar hann var handtekinn. Hafi hann verið leiddur út af lögreglu alblóðugur og í nærfötunum einum klæða. Þurfti lögregla að beita piparúða til að hemja hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×