Innlent

Hjólabrettakappi fékk dæmdar bætur eftir furðulegt vespuslys

Birgir Olgeirsson skrifar
Slysið átti sér stað á Akureyri árið 2014.
Slysið átti sér stað á Akureyri árið 2014. Vísir/Pjetur
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur viðurkennt bótaskyldu Vátryggingafélags Íslands á helmingi þess tjóns sem ungur maður varð fyrir þegar hann steig af hjólabretti á ferð eftir að hafa verið dreginn af vespu á töluverðri ferð á Akureyri.

Maðurinn lýsti því fyrir dómi að hann hefði misst takið af bifhjólinu og dottið af brettinu. Í fallinu steig hann í hægri fótlegg sem bognaði í öfuga átt með þeim afleiðingum að hann hlaut rof á fremra krossbandi og einnig skemmdir í afturhluta innri liðþófa. 

Þetta átti sér stað í maí árið 2014 og sóttist maðurinn eftir bætum frá Vátryggingafélagi Íslands út frá ábyrgðartryggingu vespunnar. Vátryggingafélagið hafnaði þeirri kröfu á þeim grundvelli að maðurinn hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og því væri ekki til staðar bótaskylda úr ábyrgðartrygging ökutækisins. 

17. apríl árið 2015, lenti maðurinn í öðru slysi þegar hann ók snjósleða fram af hengju og fékk snúningsáverka á hægra hnéð þannig að það yfirréttist. Fann hann fyrir verkjum og bólgu í hné eftir það slys og viðurkenndi Vátryggingafélagið bótaskyldu vegna þess atviks. 

Sóst var eftir mati á áverkum mannsins en ljóst var að ekki væri mögulegt að meta líkamstjón mannsins án þess að lagt yrði mat á það líkamstjón sem hann varð fyrir árið 2014. Niðurstaða matsmanna var á þann veg að tjón mannsins væri að jöfnu, þannig var varanleg örorka í slysinu metin 4 prósent og sama vegna slyssins árið 2015.

Fyrr í ár fór maðurinn fram á að Vátryggingafélagið myndi endurskoða afstöðu sína vegna slyssins í maí árið 2014 en félagið hafnaði því og var málið höfðað fyrir dómstólum í framhaldi af því.

Var það niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að Vátryggingafélag Íslands bæri ábyrgð á helmingi þess tjóns sem maðurinn varð fyrir í slysinu 2014. Var maðurinn talinn hafa sýnt af sér mikið gáleysi með því að grípa aftan í vespuna, en ökumaður vespunnar var einnig talinn hafa sýnt af sér mikið gáleysi með því að aka henni á svo miklum hraða að maðurinn gat hlotið skaða af.

Málskostnaður aðila var látinn niður falla og var það ákvörðun dómstólsins að gjafakostnaður mannsins, upp á 800 þúsund krónur, greiðist úr ríkissjóði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×