Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - Valur 1-2 | Stjarnan í Evrópu þrátt fyrir tap

Stefán Árni Pálsson skrifar
Úr leik liðanna fyrr í sumar.
Úr leik liðanna fyrr í sumar. vísir/anton
Það var enginn Íslandsmeistaraþynnka í Valsmönnum á Samsung-vellinum í dag en liðið vann góðan sigur, 2-1, á Stjörnunni í næstsíðustu umferð Pepsi-deildarinnar. Valsmenn nýttu sín tækifæri vel og unnu því fínan sigur en Stjörnumenn fengu sín færi og skoruðu eitt mark undir lokin úr vítaspyrnu. Bjarni Ólafur Eiríksson og Guðjón Pétur Lýðsson skoruðu mörk Vals og Hilmar Árni gerði eitt fyrir Stjörnuna.

Af hverju vann Valur? Liðið er einfaldlega besta lið á Íslandi og er réttilega Íslandsmeistari. Munurinn á milli Vals og Stjörnunnar var sá í dag að gestirnir nýttu sín færi og gerðu það vel. Varnarleikur Vals er svo hrikalega þéttur að það er ótrúlega erfitt að brjóta þá að bak aftur.

Hverjir stóðu upp úr? Anton Ari Einarsson var magnaður í marki Vals í dag. Stjörnumenn fengu sín færi en Anton var alltaf mættur á svæðið og varð mark Valsmanna einstaklega vel. Varnarlínan í heild sinni átti frábæran leik og var Guðjón Pétur Lýðsson flottur á miðjunni. Hilmar Árni Halldórsson var einnig mjög fín í liði Stjörnunnar.

Hvað gekk illa? Þetta var einhvern veginn ekki dagur Stjörnumanna og hefur liðið án efa aldrei gert jafn marga sendingafeila í einum leik í sumar. Stuttar, langar og auðveldar sendingar voru að reynast þeim mjög erfilega í dag. Stjörnumenn þurfa að fara vel yfir sinn leik fyrir stórleikinn gegn KR í lokaumferðinni. Þeir verða einnig að nýta færin mun betur.

Hvað gerist næst? Stjarnan mætir KR í þýðingalitlum leik KR-vellinum en Valsmenn fá Íslandsmeistarabikarinn á heimavelli gegn Víkingi R.

Maður leiksins: Anton Ari Einarsson en allar einkunnir leikmanna má sjá ef ýtt er á Liðin

Sigurbjörn: Vonandi fyllum við Hlíðarenda„Það er klárt mál að við ætlum að enda þetta mót eins og menn og enda með fimmtíu stig ,“ segir Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, eftir sigurinn í dag.

„Það er mjög sterkt að koma hingað á mjög erfiðan útivöll og vinna leikinn. Það var ekkert erfitt fyrir okkur í þjálfarateyminu að mótivera menn í þetta verkefni, við vorum að spila við liðið sem er í öðru sæti.“

Hann segir að Valsmenn vilja bara alltaf sýna það að þeir séu með langbesta liðið á Íslandi.

„Þeir komumst í ákjósanlegar stöður í leiknum og hefðu getað skorað á okkur, en sem betur fer féll þetta með okkur. Við hefðum reyndar einnig getað skorað mun fleiri mörk. Við ætlum svo sannarlega að taka við titlinum með sigurleik og vonandi fyllum við Hlíðarenda.“

Rúnar Páll: Fótboltinn er stundum svo skrýtin„Það er jákvætt að ná þessu Evrópusæti og það var alltaf okkur grunnmarkmið,“ segir Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn í dag.

„Miðað við yfirburði okkar í þessum leik þá áttum við að klára hann. Fótboltinn er stundum mjög skrýtin og það er einkennilegt fyrir okkur að fá ekkert út úr þessum leik í dag.“

Anton Ari og markramminn var Stjörnumönnum mjög erfiður í dag.

„Anton varði feikivel og síðan tókum við mjög fín skot sem höfnuðu oft á tíðum í stönginni. Síðan fáum við urmul af hornspyrnum og aukaspyrnum sem við náum ekki að nýta og við þurfum aðeins að fara yfir það.“

Rúnar segist vera ósáttur við það að fá mörk á sig upp úr föstum leikatriðum.

„Við vorum mun betra liðið en Valur í dag, en við fengum ekkert út úr leiknum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira