Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fjölnir - KR 2-2 | Fjölnir sloppnir og KR ekki í Evrópukeppni

Smári Jökull Jónsson skrifar
KR-ingar verða að fá þrjú stig í dag.
KR-ingar verða að fá þrjú stig í dag. vísir/andri
Fjölnismenn tryggðu sæti sitt í Pepsi-deildinni að ári eftir 2-2 jafntefli gegn KR á heimavelli í dag. KR varð um leið af Evrópusæti á næsta tímabili en þeir þurftu sigur til að eiga möguleika á því.

Fyrri hálfleikur var fremur tíðindalítill og eina alvöru færi leiksins kom á lokamínútu hálfleiksins þegar Birnir Snær Ingason átti gott skot sem Beitir Ólafsson í marki KR varði glæsilega.

KR-ingar fengu fregnir af stöðunni í öðrum leikjum í leikhléi þar sem Stjarnan var undir gegn Val og því allt upplagt fyrir úrslitaleik KR og Stjörnunnar um Evrópusætið í lokaumferðinni.

Þetta hafði góð áhrif á Vesturbæinga sem mættu afar grimmir til leiks og strax á 48.mínútu skoraði Tobias Thomsen af stuttu færi eftir að Óskar Örn Hauksson hafði átt skalla í þverslána.

Seinni hálfleikur var mun fjörugri en sá fyrri og Fjölnismenn voru búnir að jafna áður en langt um leið. Ingimundir Níels Óskarsson skoraði þá með þrumuskoti beint úr aukaspyrnu, skaut í stöngina og inn og Beitir í markinu kom engum vörnum við.

Átta mínútum síðar kom Ástbjörn Þórðarson KR yfir á ný með góðu skoti úr teignum og á þeim tímapunkti leit allt út fyrir að Fjölnismenn yrðu í harðri fallbaráttu allt fram á síðustu mínútu Íslandsmótsins.

Birni Snæ leist hins vegar ekkert á það. Hann jafnaði með góðu skoti úr teignum eftir slakan varnarleik KR og fínan undirbúning Marcus Solberg.

Þetta reyndist lokamarkið í leiknum og Fjölnismenn því hólpnir en KR-ingar gengu svekktir af velli enda vonin um Evrópusæti úti.

Af hverju varð jafntefli?

Það sást í fyrri hálfleiknum að það var mikið undir í dag. Í hálfleik bárust fregnir af öðrum völlum og báðum liðum varð ljóst að þau þyrftu að sækja stigin þrjú og gáfu heldur betur í. Þegar KR-ingar komust yfir strax í upphafi seinni hálfleiks héldu flestir að þeir myndu hafa sigur en Fjölnismenn sýndu gríðarlegan karakter að jafna í tvígang.

Slakur varnarleikur KR hafði eitthvað um það að segja og Willum Þór getur varla verið ánægður með varnarleikinn í seinni marki Fjölnis.

Eftir 2-2 markið héldu Fjölnismenn áfram að sækja í stað þess að falla niður og KR-ingar náðu í raun aldrei neinni alvöru pressu undir lokin. Bæði lið fengu hættulegar sóknir en jafntefli er nokkuð sanngjörn niðurstaða þegar allt kemur til alls.

Þessir stóðu upp úr:

Hjá Fjölni var Birnir Snær Ingason öflugur og sá sem lét hlutina gerast í sóknarleik heimamanna. Hann ógnaði með hraða sínum og leikni og átti svo sannarlega skilið að skora í þessum leik.

Hjá KR komu ungu leikmennirnir nokkuð öflugir til leiks og Ástbjörn Þórðarson skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild. Arnór Sveinn Aðalsteinsson átti þátt í báðum mörkum KR en liðið saknaði framlags Óskars Arnars Haukssonar sem sást lítið í dag.

Hvað gekk illa?

Í fyrri hálfleik gekk báðum liðum bölvanlega að byggja upp alvöru sóknir. Aðstæður voru auðvitað fremur erfiðar en liðin geta þó betur og sýndu það í síðari hálfleiknum.

KR gekk illa að halda forystunni og það er afar slæmt að tapa forystu í tvígang í jafn mikilvægum leik. Það segir manni að einbeitinginn er ekki nægjanlega góð.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga fremur þýðingarlitla leiki framundan í lokaumferðinni. KR þarf þó sigur til að halda 4.sætinu en KA fer uppfyrir þá með sigri gegn ÍBV ef Vesturbæingar tapa stigum.

Fjölnir heldur til Grindavíkur þar sem allra augu verða á Andra Rúnari Bjarnasyni sem á möguleika á því að jafna og slá markamet efstu deildar. Fjölnismenn geta mest náð 6.sætinu með sigri og hagstæðum úrslitum en geta einnig misst Eyjamenn framúr sér þó sætið í deildinni sé tryggt.

Maður leiksins: Birnir Snær Ingason, Fjölni.

Einkunnir leikmanna má sjá með því að smella á flipann liðin hér fyrir ofan.

Ágúst: Búið að vera mikið stress
Ágúst sagðist fara sáttur á koddann í kvöld enda sætið í Pepsi-deildinni tryggt.vísir/anton
Ágúst Gylfason þjálfari Fjölnis var vitaskuld ánægður eftir að hans menn tryggðu sætið í Pepsi-deildinni að ári en það gerðu þeir með jafnteflinu gegn KR í dag.

„Þetta var hörkubarátta í seinni hálfleik og bæði lið vildu greinilega vinna. Aðalatriðið var að halda sætinu í deildinni og það var markmiðið síðustu vikur. Þetta er búið að vera mikið stress en félagið hefur staðið vel saman í að tryggja okkur í deildinni,“ sagði Ágúst Gylfason í samtali við Vísi eftir leik.

KR komst yfir í tvígang í síðari hálfleiknum en Fjölnismenn komu jafnharðan til baka og náðu stiginu.

„Ég var mjög ánægður með það. Við fórum yfir það í hálfleik að við ætluðum ekki að falla niður og leyfa þeim að komast að markinu. Því miður gerðum við það og þeir komast yfir og svo gerist það aftur í seinna markinu. Við komum til baka og sýnum karakter með að ná í stigið sem okkur vantaði. Maður fer allavega sáttur að sofa í kvöld.“

Fyrir nokkru síðan voru ansi margir tilbúnir að dæma Fjölnismenn niður sem áttu þá marga erfiða leiki framundan og margir vildu meina að þeir myndu ekki næla í mörg stig til viðbótar í Pepsi-deildinni. Ágúst sagði þetta hafa hjálpað til.

„Það er oft gott þegar þú færð svona stimpil á þig, að þú sért að fara niður. Við sýndum karakter og það var ekkert auðvelt að mæta FH og KR en við náðum í fjögur stig í þessum leikjum. Við erum sterkir á heimavelli og það kemur enginn hingað og tekur eitthvað af okkur. Þetta hefur verið langt og strangt mót og mikið af fríum og það er gaman að halda sér uppi.“

Fjölnir mætir Grindavík á útivelli í síðustu umferðinni í fremur þýðingalitlum leik. Augu flestra munu væntanlega beinast að Andra Rúnari Bjarnasyni og hvort hann nái að jafna eða bæta markametið. Munu Fjölnismenn reyna að leggja stein í hans götu á laugardaginn?

„Við spilum bara okkar leik og hvort hann gerir eitthvað er undir okkur og honum komið. Það er aðal umtalið í dag en við spilum bara okkar leik og sjáum hvað gerist,“ sagði Ágúst að lokum.

Willum Þór; Mikil vonbrigði
Willum Þór Þórsson var svekktur í lok leiks í dag.Vísir/Eyþór
„Þetta eru vonbrigði og sérstaklega því við náum tvisvar forystu. Það er sárt að ná ekki að halda því,“ sagði Willum Þór Þórsson þjálfari KR eftir jafntefli gegn Fjölni á Extra-vellinum í dag en Evrópudraumur KR er á enda því liðið þurfti sigur í dag.

„Ákafinn og hugarfarið er til staðar og við spiluðum vel í dag gegn Fjölnisliði sem var að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Þeim tókst það en um leið fjaraði okkur draumur út. Við vorum fullvissir um það að við myndun ná að vinna okkur inn flottan úrslitaleik í síðustu umferðinni,“ bætti Willum við en KR mætir Stjörnunni í lokaumferðinni og með sigri í dag hefði það verið úrslitaleikur um sæti í Evrópu á næsta tímabili.

Ungir leikmenn fengu tækifærið hjá KR í dag vegna fjarveru lykilmanna og Willum sagði það ljósið í myrkrinu að öflugir leikmenn væru að koma upp en 2.flokkur KR varð Íslandsmeistari á dögunum.

„Þeir sýndu það hér í dag að þeir verðskulda það að geta stefnt að sæti í KR-liðinu á komandi árum. Allir þeir sem voru hér í dag spiluðu með okkur í vetur og sumir hverjir sem byrjuðu hafa verið að koma inn í Evrópu- og deildarleikjum. Við þurfum að vanda okkur með árgangana sem eru að koma upp. Svo er þetta í þeirra höndum.“

Willum sagði það morgunljóst að KR-liðið myndi mæta af fullum krafti í leikinn gegn Stjörnunni sem hefur litla sem enga þýðingu.

„Þegar við föum í KR-búning þá er ekkert annað en sigur sem kemur til greina. Við vinnum vel í vikunni og komum svo á fleygiferð í síðasta leikinn. Við ætlum að ljúka mótinu á sigri.“

Skúli Jón: Skal taka fyrsta markið á mig
Skúli Jón í leik frá því fyrr í sumar.Vísir/Hanna
„Við erum mjög svekktir. Við þurftum önnur úrslit og fengum þau og því er sérstaklega grátlegt að gera jafntefli hér. Við komumst tvisvar yfir og það er hrikalega dapurt að ná ekki að halda hreinu,“ sagði Skúli Jón Friðgeirsson leikmaður KR eftir jafnteflið gegn Fjölni í dag.

Varnarleikur KR var dapur í seinni marki Fjölnis en Skúli Jón sagðist taka fyrsta markið á sjálfan sig.

„Ég hendi mér niður í tæklingu á hættulegum stað þar sem ég hefði átt að standa í lappirnar. Í seinna markinu gerum við svo mistök úti á kanti og svo sé ég ekki hvað gerist.“

Það var mikil spenna í leikjum dagsins en KR þurfti á því að halda að FH og Stjarnan töpuðu stigum ætluðu þeir sér að eiga von um Evrópusæti. Sú varð raunin og KR-ingar fylgdust vel með gangi mála á öðrum vígstöðum.

„Við vissum hvernig staðan var í hálfleik og ég held að við höfum sýnt það. Við vissum að við þyrftum að skora mark og gerum það tvisvar. Þess vegna er hrikalega pirrandi að ná ekki að klára þetta,“ bætti Skúli Jón við.

Hann var sammála því að tímabil KR gæti ekki flokkast sem annað en vonbrigði enda stendur liðið eftir titlalaust og án sætis í Evrópukeppi á næsta ári.

„Við komum alltaf inn í mótið til að vinna og við vinnum ekki í ár. Það eru vonbrigði.“

Birnir Snær í baráttunni í leik gegn FH.vísir/eyþór
„Þetta er nokkuð fínt að halda okkur uppi í Pepsi-deildinni. Þetta leit ekkert alltof vel út fyrir nokkrum leikjum og mjög gott að ná að halda okkur uppi,“ sagði Birnir Snær Ingason í samtali við Vísi að leik loknum í dag en hann átti góðan leik fyrir Fjölnismenn.

Birnir Snær sagði það hafa haft lítil áhrif á sig þegar menn voru að ræða það að Fjölnismenn væru á leið niður og ættu erfiðustu leikina eftir af liðunum í fallbaráttunni.

„Ég heyrði lítið af þessu en við áttum þrjá leiki sem við ætluðum að vinna en gerðum ekki. Síðustu þrír leikirnir voru síðan ekkert þeir léttustu en það var gott að vinna FH og ná í stig hér.“

Mark Birnis Snæs var það sem tryggði sætið en hann jafnaði í 2-2 þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.

„Marcus (Solberg) gerði vel úti á kanti og sendi fyrir. Miðjumaðurinn þeirra hittir ekki boltann sem datt fyrir mig og ég setti hann í hornið. Hann lá svona skemmtilega inni,“ sagði hinn efnilegi Birnir Snær að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira