Umfjöllun, viðtöl og myndir: Fjölnir - Valur 17-18 | Valur sigraði Fjölni eftir fjörugar lokamínútur

Einar Sigurvinsson skrifar
Ásgeir Vignisson skorar eitt fimm marka sinna.
Ásgeir Vignisson skorar eitt fimm marka sinna. vísir/eyþór
Valur fagnaði sínum þriðja sigri í jafn mörgum leikjum þegar liðið sigraði Fjölni 17-18 í Grafarvoginum í kvöld.  

Staðan í hálfleik var 9-12 fyrir Val. Fjölnir spiluðu 5-1 vörn sem Valsmenn áttu oft á tíðum í miklu basli með að finna leiðir í gegnum. Valsmenn náðu samt sem áður að fara þremur mörkum yfir inn í hálfleikinn með enn því að spila enn betri varnarleik sín megin. Það sem vörn Vals náði síðan ekki að stoppa fór sjaldan framhjá Sigurði Ingiberg í markinu, en hann endaði leikinn með 19 varin skot og 53 prósent markvörslu.

Í síðari hálfleik áttu bæði lið í miklum erfiðleikum með að skora og eftir að korter hafði verið leikið af hálfleiknum höfðu einungis verið skoruð fjögur mörk. Valsmenn héldu þó sínu forskoti vel og á 53 mínútu í stöðunni 13-17 leit allt út fyrir að Valur ætlaði að ná klára þennan leik nokkuð örugglega.

Þá detta Fjölnismenn hinsvegar í gang og skoru næstu fjögur mörk leiksins og minnka muninn í eitt mark, staðan 16-17 á 58 mínútu. Fjölnir hafði síðan tækifæri til að jafna úr síðustu sókn leiksins en vörn Vals neyddi Kristán Örn í erfitt skot. Lokaniðurstaðan 17-18 eftir æsispennandi lokamínútur.

Af hverju vann Valur?

Frábær varnarleikur Vals og markvarsla Sigurðar var lykilinn að þessum sigri hjá Val. Valsmenn fá einungis á sig 17 mörk og þá dugar að skora ekki nema 18 til að sigra.

Þessir stóðu upp úr:

Varnir beggja liða stóðu upp úr í þessum leik og menn leiksins voru báðir markverðirnir á vellinum. Hjá Val var Sigurður Ingibert með 19 varin skot og þar af tvö víti.

Hinum megin á vellinum átti Ingvar Kristinn frábæran leik í marki Fjölnis með 17 varin skot.

Hvað gekk illa?

Bæði lið áttu í miklum erfiðleikum með að finna leiðir í gegnum vörn andstæðinga sinna og þegar það tókst voru dauðafærin líka að klikka. Bæði lið eiga að fá fleiri mörk frá sínum mönnum í sókninni.

Hvað gerist næst?

Það verður nýliðaslagur í næstu umferð þegar Fjölnir mætir ÍR í Breiðholtinu, fimmtudaginn 28. september. Sama dag eiga Valsmenn útileik á móti Selfossi.

Snorri Steinn: Áttum að vera löngu búnir að nánast gera út um leikinn

„Bara mjög sáttur með að fá tvö stig,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals.

Valsmenn hafa unnið alla þrjá leiki sína á tímabilinu til þessa og eru því enn sem komið er með fullt hús stiga í Olís deildinni.

„Við getum allavega ekki verið með fleiri stig, það er alveg á hreinu en við hinsvegar alveg getað tapað einhverjum af þessum stigum. Það eru fullt af hlutum sem við þurfum að laga en ég er mjög ánægður að vera með 6 stig“.

Valur spilaði góða vörn í kvöld og fengu einungis á sig 17 mörk en unnu samt sem áður aðeins með einu marki.

„Mér fannst við bara þurfa að nýta dauðafærin í dag, það fyrst og síðast gerði það að verkum að þetta var jafnt í lokin. Við áttum að vera löngu búnir að nánast gera út um leikinn. Við gátum líka verið meira yfir í hálfleik. Fjölnismenn segja eflaust eitthvað svipað. Siggi var frábær í markinu hjá okkur en ég var fyrst ósáttur með það að vera ekki meira yfir í hálfleik og svo ósáttur með það að vera ekki búinn að gera út um leikinn fyrr“.

„Við skorum ekki úr færunum,“ svaraði Snorri, þegar hann var spurður út í skýringar á lítilli markaskorun í síðari hálfleik.

„Ég var mjög ánægður með varnarleikinn og mjög ánægður með markvörsluna. Ég þarf náttúrulega að skoða leikinn aftur en fyrst og síðast var ég mjög óánægður með nýtinguna á færunum okkar í dag, það er það sem hleypir leiknum upp í óþarfa spennu“.

Snorri vildi síðan ekki meina að um einbeitingarleysi hafi verið að ræða þegar Fjölni tókst að minnka muninn niður í eitt mark í lokin.

„Þeir gerðu þetta bara mjög vel. Við voru bara búnir að fara illa að ráði okkar og buðum hættunni heim. Þeir náttúrlega bara héldu alltaf áfram og höfðu engu að tapa og gerðu það frábærlega. Þeir hefðu hugsanlega átt skilið að jafna í lokin, það getur vel verið. Það eru tíu mínútur eftir og við erum einu til tveimur mörkum yfir. Þá eðlilega verður þetta jafn og spennandi í lokin“, sagði þjálfari Vals, Snorri Steinn Guðjónsson að lokum.

Sigurður Ingiberg: Mjög pirrandi að horfa á þetta

Markvörður Vals, Sigurður Ingiberg Ólafsson, átti frábæran leik og varði 19 af þeim 36 skotum sem hann fékk á sig í leiknum.

„Hann var líka að verja í markinu hinum megin og við fórum illa að ráði okkar sóknarlega, við þurfum bara að einbeita okkur aðeins betur að sóknarleiknum“, sagði Sigurður við Vísi í leikslok.

Fjölnir náði að skora fjögur mörk í röð og enduðu á að minnka muninn í eitt mark þegar tvær mínútur voru eftir. Sigurður sagði þetta ekki hafa verið þægilegar lokamínútur.

„Ég var bara frekar stressaður. Þeir mættu frekar grimmir í síðustu 10 mínúturnar og það var mjög tæpt að þeir myndu ná stiginu. Við misstum bara smá einbeitingu en sem betur fer náðum við að klára þessi tvö stig“.

„Já ég myndi geri það“, svaraði Sigurður þegar hann var spurður hvort að hægt væri að skrifa þennan lokakafla á einbeitingarleysi hjá liði Vals.

„Einbeitingarleysi við það að klára færin og við fáum fimm mörk á okkur á síðustu 5 til 10 mínútunum. Það er alveg klárt einbeitingarleysi þar sem við vorum ekki búnir að fá mörg mörk á okkur í leiknum“.

„Það er mjög pirrandi sko“, svaraði Sigurður, aðspurður hvernig það væri að horfa sóknarmenn síns liðs fara illa ráði sínu í sókninni.

„Mér fannst mjög pirrandi að horfa á þetta en maður verður bara að slaka á og verja sína bolta, það er það eina sem ég get gert. Snorri sér síðan um sóknarleikinn, ég má ekki segja neitt“.

Eyþór Árnason, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Dalhúsum í kvöld og tók myndirnar hér að neðan.

Sigurður Ingiberg átti góðan leik í marki Vals.vísir/eyþór
Snorri Steinn á bekknum í kvöld.vísir/eyþór

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira