Tónlist

Ætlar að spila glænýtt efni frá Gus Gus

Tinni Sveinsson skrifar
Biggi veira mun svala þorsta fjölmargra aðdáenda Gus Gus og gefa þeim forsmekkinn að nýju efni á morgun.
Biggi veira mun svala þorsta fjölmargra aðdáenda Gus Gus og gefa þeim forsmekkinn að nýju efni á morgun. Vísir/Stefán
Annað kvöld ætla tveir af þekktustu plötusnúðum landsins að snúa bökum saman og koma fram á skemmtistaðnum Paloma í Naustinni. Biggi veira úr Gus Gus er aðalnúmerið en honum til halds og trausts verður Thor úr Thule Records.

Biggi veira stendur í ströngu þessa dagana. Nýlega gaf Gus Gus út nýtt lag, Featherlight, og gerði sveitin víðreist á tónlistarhátíðum í sumar. Biggi mun einnig spila víða um heim næstu mánuði undir merkjunum Mexico DJ Tour og er uppákoman á Paloma einskonar upphitun fyrir það.

Ljóst er að fjölmarga aðdáendur Gus Gus hlakkar til að heyra nýtt efni frá sveitinni og lofar Biggi aðdáendum að spila það á morgun. Sveitin kemur einnig fram á Iceland Airwaves í byrjun nóvember.

Thor, eða Þórhallur Skúlason, er þekktur sem prímus mótorinn á bak við íslensku plötuútgáfuna Thule Records. Thule Records hefur risið úr dvala upp á síðkastið og ferðast Þórhallur þessi misserin út um allan heim og spilar á vinsælum klúbbum.

Hér eru nánari upplýsingar um kvöldið. Hægt er að fá forsmekkinn með því að hlusta á „Electro Shock“-syrpu frá Bigga veiru hér fyrir neðan.

Hér fyrir neðan má síðan heyra flotta syrpu frá Thor.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×