Íslenski boltinn

Anton Ari: Mamma mín er ekki eins og aðrar mömmur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Markvörðurinn Anton Ari Einarsson er ein af hetjunum í Íslandsmeistaraliði Vals. Hann átti þó erfitt uppdráttar í byrjun ferilsins hjá Val árið 2014.

„Ég kom rétt fyrir sumarið og var sendur beint á lán til Tindastóls. Svo meiddist ég og var kallaður til baka. Fljótlega eftir að ég jafnaði mig spilaði ég mína fyrstu leiki með Val sem voru líka mínir fyrstu leikir í Pepsi-deildinni,“ segir Mosfellingurinn Anton Ari.

Hann var í láni hjá Grindavík á síðasta ári en eftir að hafa verið kallaður þaðan hefur hann náð að festa sig í sessi hjá Valsmönnum.

„Þegar ég fæ traustið þá verður sjálfstraustið betra. Mér finnst frammistaðan hafa verið eftir því.“

Margir efuðust um að Anton væri nógu góður fyrir Valsmenn og hann var meðvitaður um þá umræðu.

„Ég reyni að láta alla umræðu fyrir inn um eitt eyrað og út um hitt. Ég spáði ekki mikið í henni,“ segir markvörðurinn en hans helsti stuðningsmaður er móðir hans, Hanna Símonardóttir.

„Það er ekki spurning að það er mamma. Mamma er besta kona í heimi og er ekki eins og aðrar mömmur. Hún mætti á báða Evrópuleikina úti, mætti á leikinn á Akureyri og hvar sem við erum að spila á landinu. Hún er alltaf mætt að horfa á strákinn sinn.“

Viðtalið við Anton Ara má sjá í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×