Erlent

Stefnir í öruggan sigur Angelu Merkel

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Flokkur Angelu Merkel fær flest þingsæti.
Flokkur Angelu Merkel fær flest þingsæti. vísir/EPA
Kristilegir demókratar (CDU), flokkur Angelu Merkel kanslara, verða fjölmennastir á þýska þinginu ef marka má meðaltal skoðanakannana sem Financial Times tekur saman.

Kosið er til þings á morgun en útlit er fyrir að CDU muni fá 36 prósent greiddra atkvæða.

Jafnaðarmannaflokkurinn, undir forystu Martins Schulz, mælist næststærstur með 22 prósenta fylgi. Fjórir flokkar reka svo lestina með um tíu prósenta fylgi hver.

Popúlistaflokkurinn AfD mælist með ellefu prósent, Frjálslyndi flokkurinn með tíu prósent, Vinstriflokkurinn með níu prósent og Græningjar með átta prósenta fylgi.

Samkvæmt útreikningum Wahl­recht.de stefnir í að CDU fái 38 prósent þingsæta, Jafnaðarmannaflokkurinn 23 prósent og aðrir flokkar um tíu prósent.

Það þýðir að ríkisstjórn Kristilegra demókrata og Jafnaðarmannaflokksins rígheldur en ekki er þó vitað hvort samstarfið haldi áfram. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×