Lífið

Ungfrú Tyrkland svipt titlinum vegna óviðeigandi tísts

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Itir Esen er hér fyrir miðju og Asli Sumen, sem tekur við titlinum, er til vinstri.
Itir Esen er hér fyrir miðju og Asli Sumen, sem tekur við titlinum, er til vinstri. Vísir/Getty
Itir Esen, sigurvegari Ungfrú Tyrkland hefur verið svipt titli sínum eftir tíst sem vísaði í misheppnaða valdaránstilraun hersins þar í landi þann 15. júlí 2016.

Skipuleggjendur keppninnar sögðu tíst Esen vera „óviðunandi“ og staðfestu að hún væri svipt titlinum einungis nokkrum klukkutímum eftir að hún var krýnd.

Tístið birti Esen í júlí, um það leyti sem eitt ár var liðið frá valdaránstilrauninni þar sem nær 250 manns létu lífið.

„Ég byrjaði á blæðingum í morgun til að halda upp á píslarvottadaginn 15. júlí. Ég held upp á daginn með því að blæða sem tákn um blóð píslarvottanna,“ skrifaði Esen en Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, talar iðulega um þá sem börðust gegn valdaránstilraun hersins sem píslarvotta.

Samkvæmt skipuleggjendum keppninnar komu ummæli Esen ekki í ljós fyrr en eftir keppnina sem haldin var í Istanbúl í gær.

Esen hefur sjálf beðist afsökuanar á ummælunum á samfélagsmiðlum sínum.

„Ég vil segja að sem 18 ára stúlka var færslunni ekki ætlað að vera pólitísk,“ skrifaði Esen. „Ég var alin upp við það að bera virðingu fyrir heimalandi mínu og þjóð“ sagði hún og baðst afsökunar á því að orð hennar hefðu verið mistúlkuð.

Asli Sumen sem var í öðru sæti keppninnar mun nú taka við skyldum Ungfrú Tyrklands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×