Menning

King er og verður kóngur hrollvekjunnar

Benedikt Bóas skrifar
Bill Skarsgård í hlutverki trúðsins í hrollvekjunni It.
Bill Skarsgård í hlutverki trúðsins í hrollvekjunni It. Youtube.
„Þótt King hafi hugsanlega eitthvað látið undan síga í vinsældum á tíunda áratug síðustu aldar og þeim fyrsta á þessari er rétt að forðast það að álykta að við séum að enduruppgötva höfundinn núna, eða að hann hafi legið í einhverjum dvala. Á áratugunum tveimur milli 1991 og 2010 voru framleiddar kringum 35 kvikmyndir eftir sögum hans og hann sjálfur skrifaði 25 skáldsögur sem margar hverjar vekja talsverða athygli,“ segir Guðni Elísson, prófessor við Háskóla Íslands, en hann hefur meðal annars haldið námskeið um hrollvekjur þar sem Stephen King kemur við sögu.

King er ótrúlega vinsæll þessa stundina enda kvikmynd byggð á sögu hans, It, að sigra bíóheima og Stranger Things sló í gegn í sjónvarpsheimum en það er þáttaröð mótuð af skáldskaparheimi Kings eins og hann var á áttunda og níunda áratugnum og er full af vísunum í hann.

„Það sem við erum hugsanlega að sjá núna er ákveðið endurlit til tímabilsins milli 1970 og 1990 sem skilgreindi King sem höfund og hefur stundum verið álitið blómatímabil í bandarísku hrollvekjunni, þegar höfundar eins og King, Peter Straub, Robert McCammon og Dan Simm­ons verða leiðandi afl og endurskilgreina bókmenntagreinina. Netflix sjónvarpsþáttaröðin Stranger Things, sem hóf göngu sína í fyrra, er t.d. mótuð af skáldskaparheimi Kings og er full af vísunum í hann.

Nú er líka verið að kvikmynda skáldsögur frá þessu tímabili, eins og It (1986) og Dark Tower seríuna, en fyrstu þrjár bækurnar í henni, sem sumir myndu kannski kalla einkennisverk seríunnar, komu út milli 1982 og 1991.“



Guðni Elíasson
Guðni bendir á að margar skýringar séu á vinsældum Kings þessa stundina. Sköpun hans á persónum, frásagnarþræðir, sagnaheimurinn og að sögurnar snúist um aðkallandi samfélagsmálefni. 

„Í fyrsta lagi á hann afskaplega auðvelt með að skapa eftirminnilegar og litríkar persónur og um margt svipar honum þar til enska 19. aldar rithöfundarins Charles Dickens, sem King hefur sjálfur ítrekað lýst sem helstu fyrirmynd sinni. Í öðru lagi er hann afskaplega flinkur í að taka upp klassíska frásagnarþræði og endurmóta á breyttum forsendum. Sagnaheimurinn er forn og nýr í senn. Skrímslin hans tilheyra t.d. bandarískum samtíma vegna þess að þau spretta upp úr honum, þótt nöfnin sem þau bera séu stundum ævagömul.

Í þriðja lagi snúast sögurnar sem hann segir gjarnan um aðkallandi samfélagsmálefni. King hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á þennan þátt í sagnagerð sinni og í fræðiritinu Danse Macabre frá 1981 greinir hann ýmsar birtingarmyndir samtímans í hrollvekjum eftirstríðsáranna á skarpan hátt sem sýnir glögglega skilning hans á þeim félagslegu kringumstæðum sem oft móta vandaðan hrylling.“

Stephen King á frumsýningu It.Vísir/Getty
Guðni bendir á að lengi vel hafi King verið algjörlega hunsaður af bókmenntaelítunni en það hafi breyst að undanförnu enda ýmsir álitsgjafar sem hafa alist upp með sögum hans orðnir áhrifavaldar. 

„Stephen King hefur alltaf átt í fremur flóknu sambandi við bandarísku bókmenntaelítuna. Þetta hefur aðeins breyst upp á síðkastið, kannski ekki síst fyrir þá sök að nú eru þeir ýmsu álitsgjafar sem ólust upp með sögum hans komnir í áhrifastöður og þannig hefur King á undanförnum árum verið að fá ýmiss konar viðurkenningar sem liggja utan fantasíu- og hrollvekjugeirans.

Á þann hátt tilnefndi New York Times Book Review bók hans 11/22/63 eina af tíu bestu bókum ársins 2011, en það hefði þótt saga til næsta bæjar einhverjum áratugum fyrr. Fyrir tveimur árum heiðraði Obama Bandaríkjaforseti svo King með einni æðstu orðu þjóðarinnar. Að sama skapi veitti bandaríska þjóðarbókhlaðan (Library of Congress) höfundinum viðurkenningu í fyrra fyrir áratuga langt starf sitt í þágu bóklesturs. Þetta getur verið ákveðin vísbending um að staða Kings sé að styrkjast, en of snemmt er að gefa út einhverjar yfirlýsingar um slíkt.“

Símon Birgisson leikskáld

Símon Birgisson heldur úti Facebook hópnum "Kóngsmenn" þar sem aðdáendur Stephen King hér á landi skiptast á skoðunum. Hann er einn íslenskra aðdáenda Stephen King sem Fréttablaðið ræddi við. 

„Ég held að uppáhaldsbókin mín eftir kónginn hljóti að vera The Stand. Hún er svo stór og epískt og uppfull af einstaklega vel skrifuðum persónum. Hún er ekkert ósvipuð Hringadróttinssögu. Stórbrotið ævintýri um baráttuna milli góðs og ills. Ég hef alltaf verið hálf smeykur við að keyra í gegnum göng eftir að ég las hana.

Græna mílan er líka í uppáhaldi hjá mér. Las hana í skömmtum þegar hún kom út í framhaldsbókarformi og þar var kóngurinn að vinna með arfleifð Dickens og Twain. Endirinn á Grænu mílunni kallar alltaf fram nokkur tár hjá mér en lýsingin á dauða Eduard Delacroix hlýtur samt að vera með því ógeðslegasta sem kóngurinn hefur skrifað.  Ætli það lýsi ekki hæfileikum kóngsins best - hann getur gengið fram af manni en líka skrifað af alúð og ást um sínar persónur.

Síðast las ég 11/22/63 og Doctor Sleep sem er framhaldið af The Shining. Sú fyrrnefnda er ein af betri bókum kóngsins í seinni tíð en Doctor Sleep náði mér ekki alveg. 11/22/63 er kröftug tímaflakkssaga sem fjallar líka öðrum þræði um alkahólisma. Reyndar fjalla margar bækur kóngsins um fíkn en hann var sjálfur forfallinn spíttfíkill og alki. Hann segist til dæmis lítið muna eftir því að hafa skrifað Cujo og The Running man (sem hann kláraði víst á viku). 

Ætli bókin sem kom mér mest á óvart eftir kónginn var On writing: A memoir of the craft en það er eina "non fiction" bókin eftir hann. Þetta er einhver besta bók um hvernig á að skrifa bækur sem ég hef nokkru sinni lesið og hefur gagnast mér sjálfum vel í mínum skrifum og kennslu.  Bókin veitir líka innsýn í vinnuferli kóngsins, ást hans á faginu og virðingu fyrir lesandanum. Ég mæli hiklaust með henni fyrir þá sem vilja feta skáldabrautina en líka fyrir aðdáendur kóngsins sem vilja kynnast nýjum hliðum á skáldinu.“

Brynhildur Björnsdóttir, blaðamaður

Eitt af því sem Stephen King gerir betur en aðrir er að setja sig í spor og hugarheim barna. Enda eru börn og unglingar aðalsöguhetjur í flestum bókum hans. Fyrsta bókin sem ég las á ensku var The Shining, veturinn þegar ég var fjórtán og einstaklega snjóþungt og dimmt enda svaf ég með ljósin kveikt.

It er að öðrum ólöstuðum uppáhaldið mitt. Í þeirri bók segir hann nokkra magnaða hluti um bernskuna, til dæmis að ellefu ára séu börn á toppi þess að vera krakkar og þess vegna sé það töfratími, nokkuð sem ég hef rekið mig oft á í starfi mínu með börnum. Þar bendir hann líka á að krakkar lifi lífi sínu undir 150 cm sjónlínu fullorðinna þar sem bæði bestu ævintýrin og versti hryllingurinn geta gerst. Fyrir mér er Stephen King einn besti rithöfundur samtímans og eins og Astrid Lindgren og fleiri sem ekki skrifa hefðbundnar fagurbókmenntir hefur hann alveg sérstaka innsýn í heiminn og mannlegt eðli.

Markús Már Efraim, kennari í skapandi skrifum

Ég var illa haldinn af bókmenntasnobbi í menntaskóla og gaf þá lítið fyrir King þrátt fyrir að hafa ekki einu sinni lesið hann. En svo las ég einn daginn smásögu eftir hann, Gramma, og upplifði ótta við lestur í fyrsta sinn síðan ég var krakki. Mér fannst það aðdáunarverður hæfileiki að geta notað texta til að stjórna tilfinningum annarra og það hvatti mig bæði til að lesa meira eftir hann og skrifa sjálfur. King hefur líka svo augljóslega mikla ástríðu fyrir því sem hann gerir og það smitar út frá sér.

Ég beið lengi með að lesa The Shining, því kvikmyndin var í miklu uppáhaldi hjá mér, en þegar ég loksins gerði það varð ég hugfanginn. Fyrir utan allan hryllinginn þá hefur hún mikla tilfinningalega dýpt og sem faðir átti ég auðvelt með að tengja við þessa yfirþyrmandi ást sem aðalpersónan finnur til sonar síns.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala

Uppáhaldsbókin er Dolores Clai­borne. Hún er algerlega mögnuð, í henni reisir kona æru sína, ein og óstudd. Enginn stenst King snúning í persónusköpun, hann leggur allt í sölurnar svo lesandinn skilji persónurnar. Hann gerir þetta af miklu innsæi, sérstaklega hvað varðar áhrif atburða í æsku á það sem síðar verður. Hann blandar gjarnan inn yfirnáttúrulegum hlutum eða atburðum og það fer stundum yfir mín þolmörk, en ég tengi það þessari djúpu persónusköpun – persónurnar eru iðulega að glíma við svo ömurlegan raunveruleika sem hið hversdagslega ræður stundum ekki við að leysa. Það sem er sérstaklega heillandi er að honum tekst að gera þetta á trúverðugan hátt fyrir kvenpersónur líka. Það hef ég ekki séð hjá neinum öðrum karlkyns rithöfundi.

Fyrir byrjendur mæli ég með bókinni „Uppreisnin“. Hún kom út 1977 og í þeirri bók skrifar King (sem Richard Bachman) inn í framtíð sem síðar varð alvarlegur raunveruleiki; ungur maður fær útrás fyrir reiði sína í kennslustofunni, vopnaður. Nýi þríleikurinn um Mr. Mercedes er mjög gott val sömuleiðis, aftur skrifar King inn í raunveruleika sem svo varð. Sennilega er hann skyggn, karlinn.

Margrét Sverrisdóttir, sérfræðingur hjá Rannís

Ég hef mest dálæti á Stephen King þegar hann lýsir fólki sem á undir högg að sækja.

Hann hefur einstakan hæfileika til þess að lýsa persónum út frá gjörðum frekar en útliti eða fasi. Ég myndi vilja sitja í kennslustund hjá honum og læra af honum.

Fyrsta bókin trúi ég að hafi verið Carrie, eftir að hafa horft á kvikmyndina. Hann hefur skrifað af færni um sterkar konur og hann talar um kynferðis- og heimilisofbeldi. Hæfileikar Stephens King eru miklir og það er merkilegt hversu ótrúlega mikið hann hefur skrifað.

Ég trúi því að hann sé haldinn athyglissýki manns sem er yfirgefinn af föður sínum. Hann er alinn upp af einstæðri móður sem gerir hann líka skilningsríkan og næman. Hann hefur mikla tilfinningagreind.

Þórarinn Þórarinsson blaðamaður

Ég kynntist Stephen King í febrúar 1984 þegar ég hlustaði þrettán ára og drulluhræddur á útvarpsleikritið „Stundum koma þeir aftur“. Karl Ágúst Úlfsson vann leikgerðina upp úr smásögunni „Sometimes they come back“ og ég ætla að misnota aðstöðu mína hérna og skora á RÚV eða Karl Ágúst að grafa þetta upp og endurflytja!

King er frábær rithöfundur, ferlega flinkur við persónusköpun og skrifar magnaðan stíl. Ég hef marglesið margar bóka hans en enga jafn oft og vampírusöguna Salem’s Lot. Alveg meiriháttar virðingarvottur við „Dracula“.

Svo er King svo mikill vinur okkar, lesendanna, þykir vænt um okkur og ávarpar okkur ítrekað í formálum sem „Dear Constant Reader“.

Nýi þríleikurinn, sem hófst á „Mr. Mercedes“, er alger yndislestur sem óhætt er að mæla með og síðan ættu allir sem vilja kynnast manninum og list hans betur að lesa „On Writing: A Memoir of the Craft“. Helst að ná í hana á hljóðbók þar sem hann les sjálfur. Það er eins og að hafa hann andspænis sér við eldhúsborðið í notalegu spjalli.

King er góður maður sem skrifar af stakri list um skuggahliðar mannssálarinnar og annan viðbjóð.

Guðfinna Gunnarsdóttir kennari

Hann fær mann sem lesanda til að detta inn í sinn söguheim, hversu furðulegur sem hann er. Hann er gríðarlega flinkur að búa til andrúmsloft og umhverfi sem er svo lýsandi að þegar ég loka augunum þá er ég komin á staðinn. Ætli það sé ekki einmitt þess vegna sem efnið hans er notað svona mikið í kvikmyndir og sjónvarp.

Svo finnst mér svo áhugavert að lesa smásögur eftir hann sem sumar eru af allt öðru tagi en þær bækur sem hann er þekktastur fyrir. Ég kenni ensku og hef notað stuttar sögur eftir hann í kennslu, eins og til dæmis nóvellurnar Rita Hayworth and the Shawshank Redemption og The Body (úr smásagnasafninu Different Seasons).

Uppáhaldsbækurnar eru klárlega Græna mílan, skáldsagan sem hann gaf út í 6 bóka seríu. Ég man eftir að hafa hangið á hurðarhúninum á bókasafninu og beðið eftir að næsta bók kæmi úr pöntun að utan á safnið. Svo er það bók sem heitir On writing: a memoir of the craft, en í þeirri bók er hann að ræða um hvernig hann skrifar, hvaðan hann fær innblástur og hugmyndir á mjög skemmtilegan hátt.

Margrét Gústavsdóttir, blaðamaður og ritstjóri Birtu

Síðasta bókin sem ég las eftir hann var Mr. Mercedes en uppáhaldsbókin mín eftir hann heitir On Writing. Sú er kennslubók í skáldsagnarlistinni og um leið óformleg sjálfsævisaga hans.

Ég var tólf ára þegar ég byrjaði að lesa bækur eftir King. Það byrjaði allt með því að ég laumaðist til að horfa á Carrie, sem var bönnuð börnum, í sjónvarpinu. Myndin fannst mér stórkostleg og eftir þessa upplifun skrifaði ég bréf í Velvakanda þar sem ég kvartaði yfir því að hún væri bönnuð. Eftir þetta hef ég verið mikill aðdáandi Kings.

Þeir sem skrifa grín og hrylling eru oft ekki metnir að verðleikum, bókmenntagagnrýnendur taka sig kannski of hátíðlega til að vilja fjalla um grín og hrylling? Stephen King var lengi virkur alkóhólisti og kókaínfíkill en þegar hann hætti að drekka og neyta fíkniefna þá breyttust áherslurnar. Hann skrifaði t.d. Shawshank Redempt­ion og Green Mile og ímyndin fór smátt og smátt að breytast. Hryllingurinn fór út og mennskan kom inn í staðinn. Hann sýndi á sér fleiri hliðar sem rithöfundur sem er gott af því að hann er svo stórkostlega fær. Meira að segja á Twitter, þar sem hann dundar sér helst við að höggva í Trump með góðum árangri. Forsetinn móðgaðist svo mikið við eitt tístið að hann er búinn að blokkera kónginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×