Viðskipti innlent

Mun ekki áfrýja eftir sigur Heimavalla í leigudeilu

Haraldur Guðmundsson skrifar
Íbúðirnar í raðhúsum við götuna Miðholt á Þórshöfn.
Íbúðirnar í raðhúsum við götuna Miðholt á Þórshöfn. vísir/pjetur
Sveitarstjórn Langanesbyggðar ætlar ekki að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem leigufélagið Heimavellir var sýknað af kröfu sveitarfélagsins og það dæmt til að greiða 650 þúsund krónur í málskostnað. Losnar sveitarstjórnin því ekki undan leigusamningum um sex íbúðir á Þórshöfn sem gilda út 2021.

Fréttablaðið fjallaði í janúar um málarekstur Langanesbyggðar en héraðsdómur komst að niðurstöðu þann 6. júlí. Taldi sveitarfélagið að skýrt ákvæði væri í verðtryggðum samningunum sem gerði því kleift að segja þeim upp eftir að fasteignirnar voru seldar öðru félagi. Íbúðirnar sem um ræðir voru í eigu Laugavegs ehf. þegar samningarnir voru undirritaðir. Dótturfélag Heimavalla keypti V Laugaveg árið 2015 og hefur sveitarfélagið tapað yfir 20 milljónum króna frá undirritun árið 2011.

Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, sagði í samtali við blaðið í janúar að leigutekjur sveitarfélagsins, sem framleigir íbúðirnar, væru talsvert lægri en upphæðin sem það greiðir leigusalanum Heimavöllum. Lögmaður Heimavalla sagði þá að leigufélagið væri ósammála túlkun sveitarfélagsins á uppsagnarákvæði samninganna.

Sveitarstjórn Langanesbyggðar fjallaði um niðurstöður héraðsdóms á fimmtudag. Þar var lagt fram minnisblað frá Lúðvík Bergvinssyni, lögmanni sveitarfélagsins í málinu, þar sem hann ráðleggur að málinu verði ekki áfrýjað.

Samningarnir voru gagnrýndir af sumum sveitarstjórnarmönnum og íbúum Langanesbyggðar áður en húsin voru byggð. Á fundi sveitarstjórnar í mars 2011 kom fram að leigutekjur myndu einungis standa undir 70 prósentum af greiddri leigu til V Laugavegs. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×