Erlent

Segir Trump og Kim Jong-un haga sér eins og leikskólabörn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Vísir/EPA
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir að líkja megi orðaskaki Donald Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu við slagsmál leikskólabarna. BBC greinir frá.

Hafa þeir kallað hvorn annan ýmsum uppnefnum undanfarna daga eftir að Trump hótaði að gereyða Norður-Kóreu.

Sagði Kim Jong-un til að mynda að Trump væri „brjálaður“ og „elliær“. Trump svaraði um hæl með því að kalla leiðtoga Norður-Kóreu „brjálæðing“.

Kallar Lavrov eftir því að báðir aðilar rói sig aðeins niður.

„Já, það er óásættanlegt að horfa á Norður-Kóreu þróa kjarnorkuvopn en það er líka óásættanlegt að hefja stríð á Kóreuskaga,“ segir Lavrov.

Kallar hann eftir því að komið verði á ferli til þess að finna friðsæla lausn á málefnum Norður-Kóreu.

„Saman með Kína munum við freista þess að finna skynsamlega lausn en ekki byggða á tilfinningum þar sem börn á leikskóla byrja að rífast og enginn getur stöðvað þau,“ sagði Lavrov og vísaði þar til Trump og Kim Jong-un.


Tengdar fréttir

Harðari þvinganir gegn Norður-Kóreu

Bandaríkjaforseti undirritaði í gær tilskipun um nýjar viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu. Kínverskum bönkum gert að hætta viðskiptum við nágrannaríkið. Utanríkisráðherra Norður-Kóreu líkti Bandaríkjaforseta við geltandi hund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×