Innlent

Þegar öll kurl séu komin til grafar fái Landspítalinn minna en ekkert

Anton Egilsson skrifar
Páll Matthíasson, forstjóri LSH.
Páll Matthíasson, forstjóri LSH. Mynd/Landspítalinn
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að ekki sé allt sem sýnist varðandi þá þrettán milljarða sem renna aukalega til heilbrigðisþjónustunnar samkvæmt framlögðu fjárlagafrumvarpi næsta árs.  Lýsir hann áhyggjum sínum í pistli á vef Landspítalans.

Páll segir að það hafi mátt skilja á mörgum að um væri að ræða innspýtingu í kerfið en svo væri ekki nema að hluta.

„Þarna er að miklum hluta um að ræða fé til að mæta verðlagsþróun og launahækkunum en einnig fé til annarra hluta kerfisins. Það sem rennur til Landspítala er hins vegar minna en ekkert þegar öll kurl eru til grafar komin, sem er alvarlegt.“

Þurfa töluvert meira fé

Hann segir jafnframt að sá óstöðugleiki sem ríki á stjórnmálasviðinu, þar sem efnt hefur verið til kosninga án þess að afgreiða fjárlög, geri ríkari kröfur til mikilvægra stofnana eins og Landspítala að sinna sínum skilgreindu verkefnum af ábyrgð og festu.

„Er ljóst að næstu vikur og mánuðir munu verða afdrifaríkur tími fyrir spítalann og raunar heilbrigðiskerfið allt. Búast má við því að í kosningabaráttunni sem framundan er verði heilbrigðismálin enn ofarlega á baugi. Verkefni okkar á spítalanum er að gera almenningi og fulltrúum þeirra, stjórnmálamönnum, grein fyrir stöðu heilbrigðismála eins og þau snúa að Landspítala.

Segir Páll að það liggi fyrir af hálfu Landpítala að töluvert meira fé þurfi til rekstrar spítalans heldur en gert er ráð fyrir í fjármáláætlun fráfarandi ríkisstjórnar fyrir árin 2018-2022.

„Við fyrstu greiningu metum við svo að það vanti  um 3.000 m.kr. til að viðhalda óbreyttum rekstri á spítalanum á árinu 2018 og tryggja framgang þeirra verkefna sem við sinnum nú þegar. Þá vantar 1.200 m.kr. til viðbótar í bráðnauðsynlegt viðhald á húsnæði spítalans, 500 m.kr. til 1. áfanga endurbóta á húsnæði geðsviðs og 1.000 m.kr. aukalega í nauðsynleg tækjakaup.“.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×