Innlent

Kjördæmisþing Framsóknarmanna um land allt um helgina

Hersir Aron Ólafsson og Hulda Hólmkelsdóttir skrifa
Frá aukakjördæmisþingi Framsóknarmanna í Reykjavík í dag.
Frá aukakjördæmisþingi Framsóknarmanna í Reykjavík í dag.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna fara fram um land allt um helgina. Aukakjördæmisþing fór fram á vegum kjördæmasambands Framsóknarmanna í Reykjavík í dag. Meginatriði þingsins sneru að ákvörðun um hvernig velja skuli á framboðslista auk þess sem rædd voru þau stefnumál sem keyrt verður á í komandi kosningabaráttu. Samþykkt var að stillt verði upp á lista í Reykjavík.

„Í tillögunni okkar er jafnframt tillaga um að listarnir í heild sinni í báðum kjördæmum verði samþykktir 5. október. Það er okkar tillaga líka. Það er svona endapunkturinn á listunum þannig það eru þá 44 nöfn sem eru tilbúin til að bjóða sig fram fyrir hönd okkar í Reykjavík,“ sagði Jón Ingi Gíslason, formaður kjördæmissambandsins í Reykjavík, í samtali við fréttastofu í morgun.

Sams konar kjördæmisþing í norðvesturkjördæmi fer fram í Hrútafirði eftir hádegi. Í kvöldfréttum RÚV í gær voru þrír þingmenn orðaðir við framboð í fyrsta sæti listans á móti sitjandi oddvita, Gunnari Braga Sveinssyni.

Við það tilefni sagðist Gunnar Bragi finna fyrir einhverjum undirmálum í baráttunni, sem hann óttaðist að gæti skaðað flokkinn. Ekki náðist samband við Gunnar Braga við vinnslu þessarar fréttar.



Í samtali við fréttastofu vildi Þorleifur Karl Eggertsson, formaður kjördæmasambands norðvesturlands, ekki gefa upp hvort stillt yrði upp á listann - eða hvort aðrar leiðir yrðu farnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×