Innlent

Fjöldi morðmála yfir meðaltali síðustu ára

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þremur einstaklingum hefur verið ráðinn bani hér á landi á þessu ári og er fjöldi mála yfir meðaltali síðustu ára að sögn afbrotafræðings. Maðurinn sem grunaður er um morðið á Hagamel á fimmtudagskvöld er hælisleitandi samkvæmt heimildum fréttastofu.

Líkt og fram hefur komið var konu á fimmtugsaldri ráðinn bani að heimili sínu að Hagamel á fimmtudagskvöld. Konan var frá Lettlandi en hafði búið hér á landi í nokkur ár og starfaði á gistiheimili.

Maður sem hafði átt í stuttu persónulegu sambandi við konuna var handtekinn á staðnum og var hann úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í gær. Samkvæmt heimildum fréttastofu er maðurinn hælisleitandi hér á landi.

Þetta er þriðja manndrápsmálið sem kemur upp á þessu ári. Birnu Brjánsdóttur var ráðinn bani í byrjun janúar og lést Arnar Jónsson Aspar eftir líkamsárás í Mosfellsdal í júní.

Að sögn afbrotafræðings hafa að meðaltali verið framin tvö manndráp á ári frá aldamótum.

„Ef við tökum tímabilið frá aldamótum og fram til 2017 erum við með tvö manndráp að jafnaði. Það eru alltaf einhverjar sveiflur þar sem þetta eru tiltölulega fá mál á hverju ári," segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur.

Þrátt fyrir að árið sé ekki liðið teljast málin því óvenju mörg í ár.

„Ef við tökum árið 2017, og það er ekki einu sinni liðið, að þá erum við með þrjú manndráp. Það má því segja að við séum á þessu ári séum við með heldur fleiri manndráp en við höfum haft að jafnaði á síðustu árum og árið er ekki liðið," segir Helgi.

Hann telur þó ekki unnt draga of víðtækar ályktanir af auknum málafjölda.

„Við eigum ekki að draga of víðtækar ályktanir af þessum málum. En hvert manndráp slær mann auðvitað illa í þessu samfélagi sem við búum í; svona fámennu samfélagi og þetta heggur alltaf nærri okkur," segir Helgi.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×