Innlent

Áhugi fyrir sameiningu sveitarfélaga í Rangárvallasýslu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mikill áhugi er á sameiningu sveitarfélaga í Rangárvallasýslu ef marka má sveitarstjórana á Hellu og Hvolsvelli því báðir vilja þeir sjá sameiningu sveitarfélaganna.

Á Suðurlandi eru nú 15 sveitarfélög með á milli 26 og 27 þúsund íbúum. Umræða um sameiningu sveitarfélaga skýtur reglulega upp kollinum  en nú er verið að kanna þau mál víða á svæðinu. Á Hellu og Hvolsvelli eru menn í sameiningarhug en þá erum við að tala um sveitarfélögin Rangárþing ytra og Rangárþing eystra. Rynnu þau sveitarfélög undir sömu sæng yrði til um 3.500 manna sveitarfélag.

„Ég held það. Ég held það væri mjög mikilvægt að skoða það vel. Ég held að því verði ekki þröngvað upp á neinn heldur á að skoða það og leyfa síðan íbúum að kjósa um það. Margt gerum við örugglega betur saman heldur en sitt í hvoru lagi,“ segir Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra þegar hann er spurður hvort hann sé hlynntur sameiningunni.

Í sama streng tekur Ísólfur Gylfi Pálmason hjá Rangárþingi eystra: „Það kemur alveg vel til greina að sameina þessi sveitarfélög og hlýtur að vera gert áður en langt um líður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×