Innlent

Keyrði af slysstað undir áhrifum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. vísir/ktd
Tveir voru fluttir á slysadeild eftir árekstur á gatnamótum Arnarnesvegar og Salavegar rétt fyrir miðnætti. Báðir bílarnir eru óökufærir en ekki er talið að meiðsl á fólki hafi verið alvarleg.

Þá barst lögreglunni tilkynning um umferðarslys laust fyrir fjögur í nótt. Um tveggja bíla árekstur var að ræða en ökumaður annars bílsins ók í burtu af vettvangi. Hann var stöðvaður stuttu síðar grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og reyndist hann einnig vera sviptur ökuréttindum. Ökumaður hins bílsins var fluttur á sjúkradeild.

Fimm önnur mál þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna komu á borð lögreglunnar í nótt.

Tvö ofbeldismál komu á borð lögreglu samkvæmt dagbók lögreglu. Annars vegar var tilkynnt um líkamsárás í miðbænum klukkan rúmlega fjögur í nótt þar sem maður hafði verið kýldur fyrir utan skemmtistað.

Hins vegar barst lögreglunni tilkynning um heimilisofbeldi um klukkan hálf fimm í nótt. Meintur gerandi var handtekinn og vistaður í fangageymslu og verður hann yfirheyrður í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×