Erlent

Tugir þúsunda flýja eldfjallið Agung á Balí

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Búist er við að enn fleiri muni þurfa að flýja heimili sín á næstu dögum.
Búist er við að enn fleiri muni þurfa að flýja heimili sín á næstu dögum. Vísir/Getty
Rúmlega 34 þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín í nágrenni við eldfjallið Agung á indónesísku eyjunni Balí. Talið er að Agung muni gjósa á næstu dögum og væri það fyrsta gosið í fjallinu í fimmtíu ár. Rýming stendur yfir og von er á að enn fleiri eigi eftir að þurfa að flýja heimili sín næstu daga.

Eldfjallið er í 75 kílómetra fjarlægð frá ferðamannastaðnum Kuta og hefur það verið að bæra á sér síðan í ágúst.

Hæsta viðbúnaðarstigi var lýst yfir á Balí á föstudag eftir að virkni í fjallinu fór að aukast og er fólk hvatt til að halda sig í minnst níu kílómetra fjarlægð frá fjallinu. Búist var við því að loka þyrfti flugvellinum í Denpasar, höfuðstað Balí, en enn hefur engin röskun verið á flugi. Fari hins vegar svo að eldgos hindri flug eru rútur sem bíða ferðbúnar við flugvöllinn til að flytja farþega á öruggan stað.

Dregið hefur nokkuð úr tíðni skjálfta í fjallinu í dag, en aftur á móti eru þeir orðnir öflugri en áður. Síðast gaus fjallið árið 1963 og þá fórust um 1100 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×