Íslenski boltinn

Willum Þór: Mikil vonbrigði

Smári Jökull Jónsson skrifar
Willum Þór Þórsson var svekktur í lok leiks í dag.
Willum Þór Þórsson var svekktur í lok leiks í dag. Vísir/Eyþór
„Þetta eru mikil vonbrigði og sérstaklega því við náum tvisvar forystu. Það er sárt að ná ekki að halda því,“ sagði Willum Þór Þórsson þjálfari KR eftir jafntefli gegn Fjölni á Extra-vellinum í dag.

„Ákafinn og hugarfarið er til staðar og við spiluðum vel í dag gegn Fjölnisliði sem var að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Þeim tókst það en um leið fjaraði okkur draumur út. Við vorum fullvissir um það að við myndun ná að vinna okkur inn flottan úrslitaleik í síðustu umferðinni,“ bætti Willum við en KR mætir Stjörnunni í lokaumferðinni og með sigri í dag hefði það verið úrslitaleikur um sæti í Evrópu á næsta tímabili.

Ungir leikmenn fengu tækifærið hjá KR í dag vegna fjarveru lykilmanna og Willum sagði það ljósið í myrkrinu að öflugir leikmenn væru að koma upp en 2.flokkur KR varð Íslandsmeistari á dögunum.

„Þeir sýndu það hér í dag að þeir verðskulda það að geta stefnt að sæti í KR-liðinu á komandi árum. Allir þeir sem voru hér í dag spiluðu með okkur í vetur og sumir hverjir sem byrjuðu hafa verið að koma inn í Evrópu- og deildarleikjum. Við þurfum að vanda okkur með árgangana sem eru að koma upp. Svo er þetta í þeirra höndum.“

Willum sagði það morgunljóst að KR-liðið myndi mæta af fullum krafti í leikinn gegn Stjörnunni sem hefur litla sem enga þýðingu.

„Þegar við föum í KR-búning þá er ekkert annað en sigur sem kemur til greina. Við vinnum vel í vikunni og komum svo á fleygiferð í síðasta leikinn. Við ætlum að ljúka mótinu á sigri.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×