Tónlist

Reyna að koma í veg fyrir gjaldþrot hjá Eistnaflugi

Haraldur Guðmundsson skrifar
Stefán Magnússon, stofnandi Eistnaflugs.
Stefán Magnússon, stofnandi Eistnaflugs. vísir/daníel
Stjórnendur þungarokks­hátíðarinnar Eistnaflugs reyna nú að forða henni frá gjaldþroti. Miðasala á hátíðina í sumar var undir væntingum og hefur Fréttablaðið eftir heimildum að starfsfólk hafi ekki fengið greidd öll sín laun.

„Ég held ég geti nánast lofað því að við náum að klára þetta. Staðan í sumar var þannig að Íslendingarnir mættu en við fengum varla útlendinga á svæðið en þeir hafa verið um 30 prósent af gestum hátíðarinnar í gegnum tíðina,“ segir Stefán Magnússon, stofnandi og stjórnarformaður Eistnaflugs.

Tónlistarhátíðin hefur verið haldin árlega, aðra helgina í júlí, í Neskaupstað síðan sumarið 2005. Þar spila bæði innlendar og erlendar hljómsveitir yfir alls fjóra daga og hefur íbúafjöldi bæjarins tvöfaldast meðan hátíðin stendur yfir. Miðasala á Eistnaflug 2018 er hafin og bjóðast miðar nú á forsöluverði eða 15 þúsund krónur.

„Við höfðum áður fengið allt að 700-800 erlenda gesti en ég ætla ekki einu sinni að giska á hvort þeir náðu 50 í sumar,“ segir Stefán.

„Það er verið að vinna úr þessu og það tekur tíma að klára þetta. Það eru allir af vilja gerðir og þess vegna er ég bjartsýnn á að við náum því,“ segir Stefán.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×