Innlent

Óttuðust að nasistafáni á skjaldarmerkinu bryti gegn lögum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Valur Gunnarsson við hlið kápunnar sem óvíst var hvort fengi að birtast.
Valur Gunnarsson við hlið kápunnar sem óvíst var hvort fengi að birtast.
Óvissa um túlkun íslensku fánalaganna hægði á útgáfu nýjustu skáldsögu Vals Gunnarssonar. Bókin er nú á leið í prentun eftir álit lögfræðings útgefandans, Máls og menningar, þess efnis að bókakápan stæðist lög.

Bókin ber heitið Örninn og Fálkinn og er skáldsaga um hvað hefði getað orðið ef þýskir nasistar hefðu gengið hér á land árið 1940 en ekki breskir hermenn. Sögumaður er starfsmaður Landsímans, Sigurður Jónasson, sem fylgist grannt með því hvernig Ísland aðlagast nasismanum.

„Ég var viðstaddur opnun Bókmenntahátíðar þegar ég hitti útgefandann og spurði hvort bókin væri ekki farin í prentsmiðjuna. Þá fékk ég það svar að það biði niðurstöðu lögfræðings,“ segir Valur.

Ástæða óvissunnar um lögmæti kápunnar er að á framhlið bókarinnar má finna óvenjulega útfærslu á skjaldarmerki Íslands. Griðungurinn, gammurinn, drekinn og bergrisinn eru á sínum stöðum en þó dekkri yfirlitum en vant er. Í stað þess að þeir raði sér í kringum íslenska fánann er milli þeirra rauður fáni nasista prýddur hakakrossinum.

„Við könnumst flest við fánalögin, um hvað má gera og hvað ekki með íslenska fánann. Það er bannað að breyta honum með einhverjum hætti, nota sem föt og það sama virðist vera með skjaldarmerkið. Það varð hins vegar niðurstaðan að lögin, þó þau séu til á pappír, séu eiginlega dauður lagabókstafur. Þeim er í það minnsta ekki fylgt mikið,“ segir Valur.

„Þá segir í 12 grein a. [fánalaga] að skjaldarmerki Íslands sé auðkenni stjórnvalda ríkisins og notkun ríkisskjaldarmerkisins sé þeim einum heimil. En við teljum að þetta sé sjálfstætt höfundaverk þess aðila er teiknar og því langsótt að kápan falli undir fánalögin,“ segir í lögfræðiáliti vegna kápunnar.

Kápan fékk því grænt ljós og kemur bókin út að um mánuði liðnum. Bókin er þriðja verk höfundarins en áður hafði hann gefið út bækurnar Konungur norðursins og Síðasti elskhuginn. „Mig hefur lengi langað til að lesa sögu um það ef nasistar hefðu klófest Ísland. Þannig að það eina í stöðunni var í raun að skrifa bók um það,“ segir Valur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×