Enski boltinn

Ekki gott að mæta Manchester City liðunum þessa dagana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester City er með gott kvennalið.
Manchester City er með gott kvennalið. Vísir/Getty
Það er sama hvaða Manchester City lið er að spila þessa dagana mótherjarnir virðast ekki eiga nein svör við góðum leik leikmanna City.

Kvennaliðið lék sinn fyrsta leik á tímabilinu á móti Yeovil Town á útivelli í gær. Stelpurnar í Manchester City unnu leikinn 4-0 eftir að hafa verið 2-0 yfir í hálfleik.

Daginn áður hafði karlalið félagsins unnið 5-0 stórsigur á Crystal Palace og með því fylgt á eftir 6-0 sigri á Watford og 5-0 sigri á Liverpool.

Markatala Manchester liðanna í síðustu fjórum deildarleikjum er því 20-0. Mótherjarnir hafa bara ekki átt möguleika.

Karlalið Manchester City hefur á þessum sextán dögum unnið einnig 2-1 sigur á West Bromwich í enska deildabikarnum og 4-0 sigur á hollenska liðinu Feyenoord í Meistaradeildinni.

Bæði Manchester City misstu af titlinum fyrr á þessu ári en eru bæði líkleg til að bæta úr því á núverandi keppnistímabili.

Kvennalið Manchester City vann eina titil félagsins á þessu ári þegar liðið tryggði sér enska bikarinn með 4-1 sigri á Birmingham City í úrslitaleik á Wembley en liðið varð síðan í 2. sæti á eftir Chelsea í sumardeildinni.  Karlaliðið endaði í þriðja sæti í ensku úrvalsdeildinni síðasta vor.

Enska kvennadeildin verður hér eftir spiluð yfir vetrartímann eins og karladeildin og var umferðin um helgina fyrsta umferðin undir nýja fyrirkomulaginu.

Síðustu deildarleikir Manchester City liðanna:

Kvennalið Manchester City vann 4-0 sigur á Yeovil Town

Karlalið Manchester City vann 5-0 sigur á Crystal Palace

Karlalið Manchester City vann 6-0 sigur á Watford

Karlalið Manchester City vann 5-0 sigur á Liverpool

4 sigrar í 4 leikjum á 16 dögum og markatalan er +20 (20-0)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×