Viðskipti innlent

Opið í bankanum um helgar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr útibúinu í Kringlunni sem var opnað á fimmtudaginn.
Úr útibúinu í Kringlunni sem var opnað á fimmtudaginn. Arion banki
Arion banki hefur ákveðið að hafa opið í útibúi sínu í Kringlunni á sama tíma og búðir í verslunarmiðstöðunni. Hingað til hefur útibúið í Kringlunni verið opið frá 9-16 á virkum dögum og lokað um helgar.

Í frétt á vef Arion banka segir að ekkert bankaútibú á landinu hafi jafnrúman afgreiðslutíma en þó er rétt að nefna að útibú bankans í flugstöð Leifs Eiríkssonar er opið alla daga ársins frá 04 á morgnana og til átta á kvöldin.

Starfsfólk útibúsins í Kringlunni verður hvorki í gjaldkerastúkum né við skrifborð heldur á gólfinu. Þar aðstoðar það viðskiptavini við notkun á stafrænum þjónustuleiðum. Þá er hægt að fá fundi með sérfræðingi í þjónustuveri bankans í gegnum fjarfundarbúnað. Hægt verður að undirrita skjöl og lánasamninga með rafrænum skilríkjum á þessum fjarfundum.

Hraðbanki er í útibúinu auk gjafakortahraðbanka og gjaldeyrishraðbanka. Sá afgreiðir evru, Bandaríkjadollara, danskar krónur og bresk pund.

Fyrir rekur Íslandsbanki sjálfsafgreiðsluútibú í Kringlunni sem opið er á opnunartíma Kringlunnar.


Tengdar fréttir

Þeir sem vilja hitta gjaldkera þurfa að borga meira

Stóru bankarnir hafa allir opnað sjálfvirk útibú. Forstjóri Arion banka segir að stóran hluta þeirrar þjónustu sem bankinn veiti sé hægt að veita á einfaldari hátt en nú er gert. Eðlilegt sé að þeir sem nýti þjónustu starfsmanna greiði hærri gjöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×