Innlent

Krufningu lokið í manndrápsmáli á Melunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi á Hagamel á fimmtudagskvöldið.
Frá vettvangi á Hagamel á fimmtudagskvöldið. vísir
Lík konunnar sem talið er að hafi verið myrt á heimili sínu við Hagamel í Vesturbæ Reykjavíkur síðastliðið fimmtudagskvöld var krufið í morgun. Bráðabirgðaniðurstöður varðandi dánarorsök ættu því að liggja fyrir síðar í þessari viku. Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi.

Einn maður er í gæsluvarðhaldi vegna málsins, grunaður um manndráp. Maðurinn var á föstudag úrskurðaður í vikulangt varðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna og sætir hann einangrun á meðan.

Grímur segir að maðurinn hafi ekki verið yfirheyrður um helgina þar sem ekki hafi verið þörf á því. Þá hafi lögreglan verið að vinna í öðrum þáttum rannsóknarinnar.  

Að sögn Gríms er nú verið að undirbúa að halda áfram yfirheyrslum vegna málsins en ekki liggur fyrir hvort hinn grunaði verði yfirheyrður í dag eða á morgun. Þá þarf jafnframt að yfirheyra nokkur vitni.

Komið hefur fram að maðurinn er hælisleitandi en samkvæmt heimildum fréttastofu er hann frá Jemen. Yfirheyrslur hafa farið fram á arabísku, sem er móðurmál mannsins, með aðstoð túlks.

Konan, sem var frá Lettlandi, og maðurinn áttu í stuttu persónulegu sambandi. Maðurinn var gestkomandi á heimili konunnar á fimmtudagskvöldið en lögreglu barst útkall um líkamsárás á tíunda tímanum það kvöld. Konan var flutt alvarlega slösuð á Landspítalann þar sem hún var úrskurðuð látin.


Tengdar fréttir

Fjöldi morðmála yfir meðaltali síðustu ára

Þremur einstaklingum hefur verið ráðinn bani hér á landi á þessu ári og er fjöldi mála yfir meðaltali síðustu ára að sögn afbrotafræðings. Maðurinn sem grunaður er um morðið á Hagamel á fimmtudagskvöld er hælisleitandi samkvæmt heimildum fréttastofu.

Úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald

Maður sem grunaður er um að hafa orðið konu að bana í íbúð hennar við Hagamel í gærkvöldi var í dag úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×