Erlent

Vísar meintri stríðsyfirlýsingu Bandaríkjanna á bug

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sarah Huckabee Sanders svarar spurningum fjölmiðlamanna í Hvíta húsinu.
Sarah Huckabee Sanders svarar spurningum fjölmiðlamanna í Hvíta húsinu. Vísir/AFP
Bandarísk stjórnvöld vísa öllum yfirlýsingu um að Donald Trump hafi lýst yfir stríði gegn Norður-Kóreu til föðurhúsanna. Utanríkisráðherra Norður-Kóreu, Ri Yong-ho, sagði blaðamönnum í gær að „heimurinn ætti að minnast þess að það hafi verið Bandaríkin sem voru fyrri til og lýstu yfir stríði“ gegn ríki sínu.

Talsmaður Hvíta hússins, Sarah Huckabee Sanders, sagði þessi ummæli utanríkisráðherrans vera „fráleit.“ Stjórnvöld í Pjongjang ættu heldur að hætta ögrunum sínum um að skjóta niður herflugvélar Bandaríkjanna í heimshlutanum. Hótun Norður-Kóreu kom í kjölfar flugs nokkurra sprengjuflugvéla meðfram strönd ríkisins á sunnudag.

Sjá einnig: Eldflaugamaðurinn mætir þeim elliæra

Talsmaður Pentagonsins, höfuðstöðva bandaríska varnarmálaráðuneytisins, sagði þó að ef Kim Jong-un og ríkisstjórn hans myndi ekki draga úr hótunum sínum - „munum við sjá til þess að forsetinn fái úrræði til að eiga við Norður-Kóreu.“

Nágrannar þeirra í suðri fara fram á að ítrekuðum eggjunum Norður-Kóreu verði mætt af festu og kænsku. Utanríkisráðherra Suður-Kóreu varaði þó við því að hvers kyns átök á svæðinu gætu fljótt farið úr böndunum.

Að sögn suður-kóreska miðilsins Yonhap hafa stjórnvöld í Pjongjang varið síðustu dögum í efla varnir meðfram ströndum ríkisins. Þá hafi þau flutt flugher sinn. Þrátt fyrir hatrammar yfirlýsingar á síðustu vikum telja sérfræðingar að litlar líkur séu á því að stríð muni brjótast út milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×