Erlent

Moska brann til grunna í Örebro

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tilkynning um brunann barst um klukkan 2 í nótt.
Tilkynning um brunann barst um klukkan 2 í nótt. SVT
Moska í sænsku borginni Örebro brann til kaldra kola í nótt. Eldsupptök eru ókunn en áður hefur verið reynt að kveikja í henni.

Þegar slökkviliðsmenn fengu tilkynningu um eldinn skömmu eftir klukkan 2 í nótt var hún þegar í ljósum logum. Þak moskunnar hafði hrunið og að sögn SVT eru slökkviliðsmenn enn að störfum. Ekki er talin hætta á að eldurinn berist í nærliggjandi byggingar.

Talsmaður slökkviliðsins segir þó að enn séu líkur á því að eldurinn nái að læsa tungunum í braki og öðru lauslegu í kringum moskuna. Hann bætir við að þau telji sig hafa náð tökum á eldinum. Jafnframt er ekki talið að neinn hafi slasast í eldsvoðanum.

Áður verið reynt að kveikja í henni

Eldsupptök eru ókunn og verður rannsókn á þeim að bíða um sinn þar sem enn logar í rústum moskunnar.

Framkvæmdastjóri moskunnar, Jamal Lamhamdi, segir í samtali við SVT að þetta sé mikill sorgardagur. Um 20 þúsund múslimar búi í Örebro og hafi þeir sótt moskuna reglulega. Hann segir að þó hafi verið reynt að kveikja áður í moskunni trúði því hann hreinlega ekki að nokkuð þessu líkt gæti gerst í Örebro.

Stjórn moskunnar muni nú funda um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×