Erlent

Hópfjármagnar leiðangur til að sanna að jörðin sé flöt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rapparinn B.o.B. hefur barist hatrammalega gegn þeim víðteknum sannindum að jörðin sé hnöttur.
Rapparinn B.o.B. hefur barist hatrammalega gegn þeim víðteknum sannindum að jörðin sé hnöttur. b.o.b.
Rapparinn B.o.B. óskar nú eftir aðstoð almennnings við að fjármagna vísindaleiðangur sem myndi sanna í eitt skipti fyrir öll að jörðin er í raun flöt.

Hann hleypti söfnunarsíðu af stokkunum í gær og stefnir hann á að safna 200 þúsund dölum, rúmlega 20 milljónum króna, svo að skjóta megi upp könnunarförum sem munu ljósmynda lögun jarðarinnar.

Söfnunin fékk nafnið „Sýnið BoB sveigjuna“ og hefur rapparinn safnað 600 dölum það sem af er, um 60 þúsund krónum.

Síðastliðið ár hefur B.o.B. barist hatrammlega gegn þeim víðteknu sannindum að jörðin sé hnöttur en ekki flatur diskur sem svífur um himingeiminn. Á Twitter-síðu sinni hefur hann birt það sem hann telur margvíslegar sannanir þess efnis að jörðin sé flöt, t.a.m. mynd af tveimur ónefndum borgum í Bandaríkjunnum sem eru í um 25 kílómetra fjarlægð frá hvorri annarri.

„Hvar er sveigjan? Vinsamlegast útskýrið þetta,“ skrifaði hann við myndina sem sjá má hér að neðan.

Tilraunir B.o.B. og annarra nafntogaðra efasemdamanna eins og Kyrie Irving, Tila Tequila og Sammy Watkins til að sannfæra almenning um eitthvað sem afsannað var fyrir árhundruðum síðan hafa farið óstjórnlega í taugarnar á vísindamönnum undanfarið ár.

Þannig hefur stjarneðlisfræðingurinn Neil deGrasse Tyson þurft að skeiða ófáum sinnum fram á völlinn á síðustu mánuðum til að reka allar yfirlýsingar rapparans öfugar ofan í hann aftur. Hér að neðan má sjá eina af fjölmörgum heiðarlegum tilraunum stjarneðlisfræðingsins til að sannfæra hinn vantrúaða rappara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×