Enski boltinn

Spænska samvinnan hjá Chelsea sú besta í bestu deildum Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Álvaro Morata skoraði þrennu um síðustu helgi.
Álvaro Morata skoraði þrennu um síðustu helgi. Vísir/Getty
Álvaro Morata hefur séð til þess að stuðningsmenn Chelsea voru fljótir að gleyma tuttugu marka manninum Diego Costa.

Spænski framherjinn hefur skorað sex mörk í fyrstu sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni þar af þrennu í 4-0 útisigri á móti Stoke City um síðustu helgi.

Morata byrjaði á bekknum í fyrsta leik Chelsea sem tapaði óvænt 3-2 á móti Burnley á heimavelli en Chelsea-liðið hefur náð í 13 af 15 mögulegum stigum í þeim leikjum sem Morata hefur byrjað.

Álvaro Morata er langt frá þvi að vera eini Spánverjinn í liði Chelsea og það hefur örugglega hjálpað honum við að koma sér fyrir á Stamford Bridge.

Samvinna Álvaro Morata og César Azpilicueta hefur verið mögnuð en fjögur af sex mörkum Morata hafa komið eftir stoðsendingar frá César Azpilicueta.

Azpilicueta lagði upp tvö af þremur mörkum Morata á móti Stoke City á laugardaginn en hafði áður gefið stoðsendingar á hann gegn Everton og Leicester City.

Squawka Football síðan hefur nú tekið það saman hvaða samvinna tveggja leikmanna hefur verið árangursríkust til þessa á tímabilinu þegar kemur að mörkum og stoðsendingum.

Enginn leikmaður í fimm bestu deildum Evrópu hefur lagt upp jafnmörg mörk fyrir einn leikmann og César Azpilicueta fyrir Álvaro Morata. Eins og sjá má hér fyrir neðan.







Stoðsendingarnar í fyrstu sex mörkum Álvaro Morata í ensku úrvalsdeildinni:

Markið á móti Burnley: Willian

Markið á móti Everton: César Azpilicueta

Markið á móti Leicester: César Azpilicueta

Fyrsta markið á móti Stoke: César Azpilicueta

Annað markið á móti Stoke: Tiemoué Bakayoko

Þriðja markið á móti Stoke: César Azpilicueta




Fleiri fréttir

Sjá meira


×